Vinstri grænir telja verkstjórn sveitarstjóra í Norðurþingi ábótavant
Á fundi félaga V-lista VG og óháðra í Norðurþingi sem fram fór í gær, var lögð fram bókun þar sem áhyggjum er lýst af gangi mála í sveitarstjórn Norðurþings. Í bókuninni er sett út á forgangsröðun tíma og verkefna við verkstjórn sveitarstjóra.
Fundurinn lagði áherslu á að á næstu vikum þyrfti að auka traust og bæta samstarf á vettvangi sveitarstjórnar Norðurþings.
Uppsafnaður vandi
Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar og fulltrúi V-lista og óháðra í sveitarstjórn Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að um uppsafnaða örðuleika að ræða og lagði áherslu á að yfirlýsingin væri frá flokknum í heild en ekki sér persónulega. „Það er engin launung að bakland VG og óháðra hefur haft áhyggjur og finnst sumt ekki ganga alveg nógu vel. Þetta er í raun og veru ekkert nýtt. Ég hef borið þetta upp við félaga mína í meirihlutanum og sveitarstjóra áður. Þetta er ekki um eitt mál sem við erum að hnjóta um. Þetta er meira svona spenna yfir ýmsu, samskipti og forgangröðun sem hefur hlaðist upp á löngum tíma,“ segir hún.
Spurð hvort það séu engin sérstök mál eða málaflokkar sem meiri óánægju gætir um segir hún að það séu helst fjölskyldumálin.
„Það er kannski helst þegar kemur að fjölskyldumálum sem hefur gengið hægt að mörgu leiti en ég vil taka fram að ég og þeir sem voru á undan mér í sveitarstjórn fyrir V-lista og óháðra, höfum átt mjög gott samstarf um margt við aðra kjörna fulltrúa og það hefur auðvitað margt áunnist á þessu kjörtímabili. En það er bara þannig að baklandið í mínum stjórnamálaflokki hefur ákveðnar skoðanir og líka metnað til að gera hlutina vel,“ segir Aldey og bætir við hún sem forseti sveitarstjórnar og þátttakandi í meirihlutasamstarfinu fyrir hönd V-lista þurfi augljóslega að ræða þessi mál og taka upp með samstarfsfólki. „Það verður gert á næstu dögum og staðan tekin upp úr því.“
Meirihlutasamstarfi ekki slitið
Þá neitaði Aldey fyrir það að í yfirlýsingunni fælist vísbending um að meirihlutasamstarfinu yrði slitið. „Nei það er engin að slíta neinum meirihluta. Þetta er bara baklandið í mínum stjórnmálaflokki sem hefur sterkar skoðanir og vill ræða hlutina og velur að fara þessa leið,“ sagði Aldey að lokum.
Vikublaðið leitaði viðbragða Kristjáns Þór Magnússonar, sveitarstjóra Norðurþings. Hann sagðist vera rétt búinn að sjá bókun Vinstri grænna og væri í sjálfu sér ekki búinn að mynda sér full mótaða skoðun. „Ég var bara að sjá þetta, ætli við fundum ekki fljótlega og tökum stöðuna á þessu,“ sagði hann og reiknaði með að hitta bakland samstarfsflokksins.
„Eins og eðlilegt er í samstarfi þriggja flokka þá koma upp ágreiningsmál. Ég á von á því að ég fái tækifæri til að hitta þetta bakland og ræða betur hvaða mál þetta eru,“ segir Kristján Þór.
Fréttin hefur verið uppfærð með ummælum frá Aldey og Kristjáni Þór