20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Forseti sveitarstjórnar vill hætta viðskiptum við Rapyd
Á fundi Sveitarstjórnar Norðurþings í síðustu viku voru lagðar fram til kynningar fundargerðir byggðarráðs, þar var meðal annars mál sem fjallað var umí Vfikublaðinu fyrir nokkru þar sem Aldey Unnar Traustadóttir, fulltrúi V-lista lagði til að sveitarfélagið hætti viðskiptum við ísraelska fyrirtækið Rapyd og nýr færsluhirðir fundinn.
Forseti sveitarstjórnar, Hjálmar Bogi Hafliðason tók undir það og sagði m.a. annars að efnahagsleg sniðganga væri vopn sem við Íslendingar gætum beitt til að ná fram friðsælli lausn á átökunum fyrir botni Miðjaraðarhafs.
Rakti sögu stríðsátaka í A-Kongó
„Það eru víða átök í heiminum, þau standa yfir mislangt og sumum þeirra höfum við einfaldlega vanist og önnur eru okkur sem daglegar fréttir. Í A-Kongó þar sem er að finna mesta magn af demöntum í Afríku, þar er sömuleiðis að finna kóbalt, gull og kopar og ýmsa eðalsteina og steinefni sem eru unnin ólöglega í skjóli átaka stríðs og hörmunga. Í meira en hundrað ár hafa verið átök á þessu svæði sem við erum einfaldlega orðin vön. Það eru átök sem eru skilgreind sem einhverjar alvarlegustu hörmungar nú á dögum þetta svæði,“ sagði Hjálmar áður en hann beindi sjónum sínum að deilum Ísrael og Palestínu.
Blóðugar deilur frá miðri síðustu öld
„Árið 1948 var Ísraelsríki stofnað á palestínsku landi. Þrátt fyrir mótmæli og vonir um eigið land tókst það ekki hjá palestínsku þjóðinni. Á milli Ísrael og Palestínu hafa geysað mörg átök á löngum tíma, blóðugar deilur sem bitna á saklausu fólki. Það er langt í land greinilega að friðsamleg og varanleg lausn finnist því miður,“ sagði Hjálmar og mælti með bók eftir Hjálmtý Heiðdal þar sem leiðir til friðar eru reifaðar og knýja á um lýðræðisleg réttindi palestínsku þjóðarinnar.
Leggur til að viðskiptum við Rapyd verði hætt
„Að því sögðu vil ég þakka fyrir þessa áskorun. Eitt vopn almennings er efnahagssniðganga. Það gerðu Íslendingar t.d. gagnvart Rússum á sínum tíma. Áskoruninn sem hér er til umræðu felst í því að sniðganga ísraelska fyrirtækið Rapyd sem við eigum í viðskiptum við og ég tel að við eigum einfaldlega að skipta um færsluhirði í þessu sambandi. Við getum haft áhrif, já við getum það. Ég vil taka undir niðurlag bókunar Aldeyar á byggðarráðsfundi þar sem rætt er um að viðskiptum um færsluhirðinn Rapyd verði hætt og nýr færsluhirðir fundinn, sem er ekki flókið mál,“ sagði Hjálmar og taldi því næst upp ísraelskar vörur sem við Íslendingar kaupum daglega.
Getum gripið til efnahagslegra aðgerða
„Sniðganga er nefnilega friðsamleg aðferð, en að því sögðu þá kaupum við örugglega mangó frá Ísrael, við kaupum húð og ilmvörur frá Moroccan oil sem er ísraelskt fyrirtæki, við kaupum föt og skó sem eru framleidd í Ísrael. Við kaupum tölvubúnað og upplýsingatæknibúnað sem er að miklu leiti framleiddur og hannaður í Ísrael, við kaupum drykki frá Ísrael, sodastream og við kaupum lyf frá teva sem eru frá Ísrael . Við getum með góðu móti sniðgengið allar þessar vörur, það eru þessar efnahagslegu aðgerðir sem við getum gert,“ sagði Hjálmar að lokum áður en hann lagði til að viðskiptum við Rapyd yrði hætt hjá Norðurþingi.