Atvinnulíf og uppbygging í Norðurþingi

Kartrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings
Kartrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings

Það eru spennandi tímar í atvinnulífinu í Norðurþingi en sveitarstjórn hefur unnið ötullega í þessum málaflokki á kjörtímabilinu, m.a. með áherslu á Grænan iðngarð á Bakka.

E-valor hefur fengið úthlutað lóð að Dvergabakka 5 á Bakka. Um er að ræða græna nýsköpun, þróun afurðavinnslu sem nýtir raforku, varma og ferskvatn til framleiðslu á vistvænu og hreinu vetni sem nýtt verður fyrir kolefnisfrí orkuskipti í samgöngum á sjó og landi. Sveitarstjórn úthlutaði lóðinni með skilyrðum um að byggingaráform liggi fyrir innan eins árs frá úthlutun lóðar og að framkvæmdir á lóðinni hefjist innan tveggja ára frá úthlutun lóðar.

Mikil uppbygging er í fiskeldi í Öxarfjarðarhéraði. Sveitarfélagið vinnur að breytingu á aðalskipulagi vegna iðnaðarsvæðis í landi Akursels sem veitir heimild til 3.000 tonna framleiðslumagns. Þá er verið að breyta aðkomu að fiskeldi sem er í stækkunarfasa á Röndinni á Kópaskeri.

Íslandsþari hefur sótt um lóð að Búðarfjöru 1 á Húsavík. Um er að ræða nýsköpunartækifæri í þurrkun á stórþara en búið er að snúa til baka frá fyrri hugmyndum um vacum þurrkun og efnavinnslu. Starfsemin gerir ráð fyrir tæplega 15 starfsgildum í byrjun sem munu aukast í samræmi við heimildir til söfnunar á stórþara. Þarna eru mikil tækifæri til frekari þróunar og fullvinnslu í framtíðinni.

Frá Húsavik 

Nýtt deiliskipulag við Norðausturveg sunnan Þorvaldsstaðaár er í vinnslu. Þar áforma Samkaup og KS eignir að byggja upp verslunarkjarna og óskuðu eftir lóð á því svæði þó skoðaðir hafi verið aðrir möguleikar jafnframt. Það verður mikil lyftistöng að fá nýja og stærri matvöruverslun á Húsavík.

Húsavíkurflug er vonandi að nást fyrir vind en það hefur verið eitt af þrýstimálum sveitarstjórnar og Framsýnar í marga mánuði, á fundum og í símtölum við þingmenn og ráðherra, við ráðuneyti, Vegagerð og Isavia. Áhersla var lögð á að ná að lágmarki 6 mánuðum í ríkisstyrkt flug en eins og staðan er núna er líklegt að þriggja mánaða ríkisstyrkur fáist í gegnum fjárauka. Þetta skiptir miklu máli fyrir atvinnulíf og íbúa staðarins, ekki síst með sjúkraflug og öryggismál í huga.

Eftir að tilkynnt var um kaup KS á hlut í Kjarnafæði Norðlenska átti byggðarráð fund með framkvæmdastjóra KN. Einnig var KS sótt heim, báðir fundirnir voru mjög góðir og gott að heyra í forsvarsmönnum fyrirtækjanna um framtíðaráform.

Allt kjörtímabilið hafa verið tíðir fundir með ráðuneytum og FSRE vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis á Húsavík. Nú er unnið að því að fara leiguleið en breyting á reglugerð vegna þess hefur ekki fengið afgreiðslu á Alþingi. Því seinkar vegna stjórnarslita og kosninga en við þrýstum áfram á útboð sem stefnt var að kringum næstu áramót.

Kópasker                     Mynd Visit North Iceland

Ein af forsendum uppbyggingar í sveitarfélaginu er nægt framboð íbúðalóða og að fjölbreyttar lóðir séu ávallt í boði. Nýtt deiliskipulag á Kópaskeri var samþykkt fyrr á árinu og nægt framboð fjölbýlislóða er í Reitnum á Húsavík, Í5. Þá er unnið að breytingu á deiliskipulagi Stórhóls-Hjarðarholts á Húsavík með það að markmiði að nýta betur innviði á þegar byggðum svæðum. Skipulagsbreytingin miðar að því að byggja megi allt að 65 nýjar íbúðir innan svæðisins í fjölbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum og einbýlishúsum. Enn fremur er horft til þess að heimila allt að 10 nýjar íbúðir í þegar byggðum einbýlishúsum innan skipulagssvæðisins.

Frá Raufarhöfn        Mynd Visit North Iceland

Sveitarfélagið lagði Bjargi íbúðafélagi til stofnframlag til byggingar sex raðhúsaíbúða sem eru í smíðum og koma á lóðina Lyngholt 42-52 á Húsavík á næstu vikum. Þetta eru almennar íbúðir sem koma til úthlutunar 15. nóvember en stefnt er á að íbúðirnar verði tilbúnar til útleigu í apríl. Það verður fróðlegt að sjá fjölda umsókna til að meta eftirspurnina eftir þessum búsetukosti.

 Vinnslutillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi Norðurþings 2025-2045 hefur verið til umfjöllunar hjá skipulags- og framkvæmdaráði. Ráðið hefur falið skipulagsfulltrúa að hefja kynningu skipulagstillögunnar á vinnslustigi. Framlögð gögn með kynningunni eru greinargerð aðalskipulags, umhverfismatsskýrsla og aðalskipulagsuppdrættir. Íbúar eru hvattir til að taka fullan þátt í samráði um vinnslutillöguna á næstu vikum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.

 

Nýjast