Lítur á sig sem Akureyring og skoðar málnotkun unglinga á samfélagsmiðlum

Finnur Friðriksson, dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri er vísindamaður janúarmánaðar.
Finnur Friðriksson, dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri er vísindamaður janúarmánaðar.

 

Finnur Friðriksson er dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans falla aðallega innan ramma félagslegra málvísinda og tengjast þannig samspili málnotkunar og félagslegra þátta.

Rannsakaði íslenska nútímamálið

Doktorsverkefni Finns snerist um ýmsar þær breytingar sem fólk þykist sjá á íslensku nútímamáli, svo sem þágufallshneigðina (mig/mér langar) og hina svo kölluð nýju þolmynd (það var sagt mér það), og hversu langt þær væru gengnar. Helstu niðurstöður voru að breytingarnar virðast komnar skemur á veg en margur hyggur og að nokkuð skýrt samband virðist vera á milli viðhorfa til málbreytinga og notkunar nýrri afbrigða.

Mikill áhugi á að skoða málnotkun unglinga á samfélagsmiðlum

Í seinni tíð hefur Finnur svo einkum horft til málnotkunar á samfélagsmiðlum en þar er nýtt málumhverfi í örri mótun. Hér hefur hann bæði skoðað kynbundna málnotkun og málfar unglinga á þessum miðlum. „Nú síðast vann ég, ásamt kollega við HÍ, grein um íslensk-ensk málvíxl unglinga í skrifum þeirra á Facebook og Facebook Messenger, og mun hún birtast í Ritinu á næstu dögum,“ segir Finnur. Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar eru að enska kemur helst við sögu í máli unglinganna í samhengi við upphrópanir, sprell, tengslamyndun eða þegar þá vantar ákveðin orð. Heilt á litið er enskunotkun öllu minni en margir gera sér í hugarlund, eða aðeins 2-3,5% af þeim heildarorðaforða sem notaður er. Umfang enskunotkunarinnar ræðst þó að nokkru leyti af því hversu opinn eða lokaður vettvangurinn er og þannig er enskunotkun mjög lítil í stöðuuppfærslum sem allir geta séð en eykst nokkuð í lokuðu tveggja manna spjalli á Messenger.  

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Eins og venjan er í upphafi árs er ég að setja mig í stellingar fyrir misserið sem nú er nýhafið. Það vill þannig til að ég er ekki með neina beina kennslu á þessu misseri, að ég held í fyrsta sinn síðan ég hóf hér störf, þannig að ég fæ svolitla hvíld núna frá því að útbúa kennsluáætlanir, fyrirlestra, verkefni og þess háttar, en á móti kemur að ég leiðbeini fleiri lokaverkefnisnemendum, á bæði bakkalár- og meistarastigi, en oftast áður og á núna fundi með þeim flestum til að koma þeim af stað,“ segir Finnur. Hann er einnig þátttakandi í stóru rannsóknarverkefni um íslenskt unglingamál en síðustu 2-3 árin hefur rannsóknarhópurinn sankað að sér talsverðu magni gagna um talmálsnotkun unglinga við mismunandi aðstæður og nú er meiningin að fara að vinna úr þessum gögnum með skipulögðum hætti, með tilheyrandi greina- og jafnvel bókarskrifum. „Loks bíð ég svo niðurstöðu varðandi umsókn um rannsóknarstyrk sem ég sendi inn ásamt kollega við HÍ, en fáist styrkurinn mun rannsóknarhluti starfs míns á næstu árum aðallega beinast að þróun, stöðu og lífvænleika íslensku mállýskueinkennanna (harðmælis, röddunar o.s.frv.),“ segir Finnur.

Hver er Finnur?

„Ég er fæddur í Reykjavík árið 1972. Þar bjó ég fyrstu sex ár árin, en eins og stundum vill verða með læknisbörn tók síðan við nokkurt flakk og ég bjó á Siglufirði 1978-80, í Eskilstuna í Svíþjóð til 1984, síðan aftur á Siglufirði í eitt ár, þar til fjölskyldan fluttist til Akureyrar 1985. Hér bjó ég á því sem heita mega mótunarár og þó ég sé ekki innfæddur leyfi ég mér að líta á mig sem Akureyring enda hef ég búið hér í meira en 25 ár samanlagt og hef gengið oftar á Súlur en ég hef tölu á,“ segir Finnur. Að loknu stúdentsprófi við MA 1992 tók við Háskólanám í Reykjavík, Edinborg og Gautaborg, með tveggja ára stoppi á Patreksfirði, þar sem Finnur kenndi við grunnskólann 1996-1998. Hann lauk BA-prófi í ensku og sagnfræði frá HÍ 1996 og doktorsprófi í almennum málvísindum frá Gautaborgarháskóla 2008. „Auk þess lauk ég námi til kennsluréttinda frá HA árið 2010 og hef starfað við HA síðan 2002. 2011-2012 þáði ég árs afleysingastöðu við Gautaborgarháskóla og en þar sinnti ég jafnframt stundakennslu á meðan námi stóð árin 1998-2002,“ segir Finnur.

Nýjast