13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Auto bregst ekki við tilmælum um tiltekt á lóð
Ekki var brugðist við kröfum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um að tekið yrði til á lóð Auto ehf á Svalbarðsströnd og er hún enn lýti á umhverfinu. Samþykkti nefndin að leggja dagsektir á fyrirtækið Auto ehf. að upphæð 50 þúsund krónur á dag frá og með 28.október síðastliðinn.
Heilbrigðisnefnd ákvað um miðjan september að áminna fyrirtækið vegna brota á samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss, sem og vegna brota á reglugerðum um hollustuhætti og meðhöndlun úrgangs. Jafnframt var samþykkt að veita fyrirtækinu lokafrest til 1. október síðastliðinn til þess að ljúka tiltekt á lóðinni. Nefndin íhugaði að beita dagsektum yrði ekki orðið við tilmælum um tiltekt á lóðinni.
Vægasta úrræðið dugar ekki til
Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að meðferð spilliefna er ábótavant og jarðvegur á svæðinu er víða mengaður af völdum olíu. Heilbrigðisnefnd harmar að tiltekt á lóð fyrirtækisins skuli enn ekki vera lokið, þrátt fyrir að fyrirtækinu hafi nú þegar verið veitt áminning sem er vægasta þvingunarúrræði.
Að mati nefndarinnar hafa ítrekuð tilmæli og nú síðast væg þvingunarúrræði ekki skilað tilætluðum árangri og því nauðsynlegt að ganga harðar fram í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur. Því var samþykkt að leggja dagsektir á fyrirtækið.