Ólíðandi viðskiptahættir sem leiða til þess að verðmæti fara í súginn

Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar
Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar
mth@vikubladid.is

„Það eru ólíðandi viðskiptahættir að skila vöru sem runnin er út á tíma sem í mörgum tilfellum leiðir til þess að umtalsverð verðmæti fara í súginn,“ segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Hvatti fundurinn afurðarstöðvar í landbúnaði og matvöruverslanir landsins til ábyrgrar innsetningar á vörum með það að markmiði að minnka matarsóun sem leiði til betri nýtingar.

Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir að af og til berist af því fréttir að matvara lendi í ruslagámum þegar verslanir skili vöru sem komin er á síðasta söludag. Hann segir vitað að  stóru verslunarkeðjurnar skili og eða hendi talsverðu magni af matvælum og segir það furðu sæta að verslunin geti sett upp ákvæði um skilarétt – þ.e. að hún geti skilað vöru sem ekki selst og er að nálgast eða kominn á síðasta söludag. Slíkt gildi ekki um vörur sem keyptar eru frá útlöndum.

Ríflega pantað inn til að sýna full kæliborð

Nefnir hann að í tilviki norðlenska matvælaframleiðendans Kjarnafæðis/Norðlenska sé vörum ekið á markað á höfuðborgarsvæðinu en verslanakeðjurnar geti svo losað sig við það sem ekki selst með því að hlaða þeim aftur á bíla og senda norður til förgunar. Þetta fyrirkomulag sé í raun galið. „Ástæða þess að verslunin skilar svo miklu magni af vöru er m.a. sú að oft og tíðum er pantað ríflega inn sem virðist hafa þann eina tilgang að geta sýnt fullar kistur og kæliborð. Við vitum af þessu til að mynda varðandi hangikjöt t.d. fyrir jólin, kæliborðin voru alltaf yfirfull, en eftir jól var rúllunum pakkað saman og þær sendar norður,“ segir Sigurgeir.

Hann bendir á að afurðastöðvar verði einnig að sjá til þess að afgreiðslumáti sé með þeim hætti að varan nýtist sem best og hvetur hann fjölmiðla til að veita fyrirtækjum aðhald í þessum efnum.

Nýjast