20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Píludeild Völsungs opnar nýja aðstöðu
Píla hefur lengi verið stunduð hjá íþróttafélögum á Íslandi en þá helst sem félagsstarfsemi en ekki íþróttastarfsemi þar sem íþróttin var ekki viðurkennd sem íþrótt innan ÍSÍ fyrr en á síðasta ári. Undanfarið hefur iðkun pílu farið hraðvaxandi á landvísu og ýmis sérfélög um pílu sótt um aðild að íþróttahéruðum innan ÍSÍ.
Píluíþróttin hefur hafið innreið sína af fullum krafti á Húsavík en síðasta vetur var stofnuð Píludeild Völsungs og fjöldi fólks skráð sig í félagið.
Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs er einn þeirra sem smitaðist af pílubakteríunni en hann hefur stundað íþróttina í nokkur ár heima hjá sér. Hann segir í samtali við Vikublaðið að pílukast sé tiltölulega ný íþrótt hér á Húsavík þó fólk hafi auðvitað leikið sér eitthvað í þessu heima hjá sér í gegnum tíðina.
„Ég veit ekki til þess að það hafi verið starfrækt píludeild áður á Húsavík, þó þetta hafi verið stundað í gegnum tíðina í félagsmiðstöðvum og einn og einn að dunda við þetta í bílskúrnum hjá sér,“ segir Jónas.
Aðspurður hvað hann telji að hafi valdið þessari sprengingu í áhuga á þessari íþrótt sem flestir hafi þó vitað af í áratugi segir Jónas að góður árangur íslenskra pílukastara á alþjóðlegum mótum hafi haft sitt að segja, en svo hafi orðið algjör sprengja á heimsmeistaramótinu í janúar.
„Ég held að þetta hafi komið í kringum heimsmeistaramótið í janúar þar sem hinn 16 ára gamli Luke Littler sló svo eftir minnilega í gegn í úrslitum. Annars hefur sportið verið að vaxa undan farin ár og fleiri og fleiri félög verið að útbúa góða aðstöðu,“ útskýrir Jónas en hann er nú að leggja lokahönd á nýja æfingaaðstöðu ásamt félögum sínum í píludeldinni.
Glæsileg aðstaða
„Við erum að taka í gegn norðurendann í sundlaugarkjallaranum. Við erum að græja þar fullkomna aðstöðu fyrir píludeild Völsungs og stefnum að formlegri opnun um miðjan mánuðinn á þessari aðstöðu eða föstudaginn 15. nóvember,“ segir Jónas og bætir við að aðdragandinn að stofnun deildarinnar hafi verið fundur sem haldinn var síðasta vetur.
„Hér á Húsavík vorum við nokkrir sem vorum að kasta og heyrðum alltaf af fleirum og fleirum sem voru að þessu í bílskúrnum. Svo ákváðum við síðasta vetur að halda píluáhugafund og mætingin fór fram úr öllum vonum. Í framhaldi af því ákváðum við að stofna þessa píludeild og fórum í kjölfarið að leita að húsnæði. Niðurstaðan var ss. norðurendinn í sundlaugarkjallaranum sem ekki hefur verið notaður í annað en geymslur hingað til. Við erum að verða búnir að byggja upp 70 fermetra aðstöðu sem er fyrsta flokks. Við erum með átta spjöld með lýsingu og fullkomnum brautum,“ segir Jónas.
Allt unnið í sjálfboðavinnu
Norðurþing styrkti píludeildina um eina milljón króna til uppbyggingar á nýrri aðstöðu og félagar deildarinnar hafa síðan látið hendur standa fram úr ermum.
„Þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu. Við fengum milljón í styrk frá sveitarfélaginu sem hefur farið í efniskostnað og þess háttar. Annars höfum við verið að vinna handtökin sjálfir,“ segir Jónas og bætir við aðspurður að vinnan sé á lokastigi.
„Við viljum auðvitað hafa þetta nánast fullklárt þegar við opnum og það er að verða það. Við eigum eftir að setja upp klósett og svona fínerí en við vorum einmitt að flísaleggja snyrtinguna," segir Jónas en síðan viðtalið var tekið er vinnu við að tengja klósett lokið.
Landsliðsþjálfari væntanlegur
Aðspurður segir Jónas að ekki verði ráðinn fastur þjálfari fyrst um sinn a.m.k. en félagsgjöld tryggi meðlimum aðgang að aðstöðunni.
„Fyrst um sinn verður ekki fastur þjálfari en það verða félagsgjöld í píludeildina og þá fá meðlimir að mæta á öll opin kvöld og geta kastað að vild. Annars getur hver sem er komið á þessi opnu kvöld og kastað gegn gjaldi en félagsfólk verðu þó alltaf í forgangi,“ segir Jónas og kveðst vera spenntur fyrir opnun aðstöðunnar en þar má eiga von á góðum gestum.
„Við ætlum að starta þessu á sem glæsilegastan hátt, til að mynda er landsliðsþjálfari búinn að boða komu sína og verður með smá kynningu um píluíþróttina á Íslandi og þá verður hægt að skrá sig í píludeildina. Innifalið í félagsgjaldinu þetta opnunarkvöld verður sérstakur pílubolur, svo ég hvet áhugasama til að láta sjá sig,“ segir Jónas.
„Pælingin með þessu er að hafa þetta flottara en heima í bílskúr, að menn séu að koma til að kasta á góðan búnað og á fyrsta flokks brautum,“ segir Jónas að lokum.