20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Að skamma rétt.
Afa Kristinn þekkti ég ekki enda dó hann áratugum áður en ég fæddist. Hann var glaðsinna og ör maður, eljusamur og mannblendinn, tók snöggar ákvarðanir og flýtti sér aldrei hægt. Honum lá hátt rómur og var fljótur að hlaupa, sigraði t.a.m. hlaupakeppni á ungmennafélagshátíð á Laugum árið 1915, hefði trúlega talist heimsmet ef klukkan hefði ekki bilað (að eigin sögn).
Hvernig átti að passa kálfinn
Eitt sinn var lítill afadrengur í heimsókn í Höfða, hann rölti út í fjós en þar var afi Kristinn önnum kafinn að flá kálf sem hékk í spotta yfir miðri tröðinni. Drengur fylgdist andaktugur með aðförunum og var ágætis handlangari. Í miðju kafi er afi kallaður inn í símann. Hann snýr sér snöggt að drengnum um leið og hann hleypur inn: "þú passar kálfinn"!! Eftir stóð stubburinn með hnífinn í höndunum, horfði á kálfinn sem hékk þarna grafkyrr og áfram jafn steindauður. Hvernig átti hann eiginlega að passa þennan kálf, það væri ekki eins og kvikindið færi eitthvað? Trúr sínu hlutverki stóð hann á miðri tröðinni og starði fast á skrokkinn, þegar afi snaraðist aftur inn í fjósið. "Hvað?!!?? kláraðirðu ekki að flá kálfinn drengur??". Fát kom á drenginn en svo stundi hann upp: "ég vissi ekki hvernig ég ætti að gera það....". Um leið og afi svipti skinninu af, sagði hann með glotti: "ég skal segja þér það drengur minn, það er miklu betra að láta skamma sig fyrir fyrir að gera einhverja vitleysu en láta skamma sig fyrir að gera ekki neitt!!!".
Margir af afkomendunum lifa enn eftir þessu ágæta mottói. Og kannski er þetta ágætt veganesti fyrir alla þá sem hyggjast taka sæti á þingi eftir nokkrar vikur.