Inga María Ellertsdóttir skipulagði áskorunina Á Pólinn fyrir jólin-Hreyfing og líkamsrækt mitt geðlyf í mörg ár

Inga María Ellertsdóttir forsprakki átaksins Á Pólinn fyrir jólin á góðri stundu upp á fjallstindi á…
Inga María Ellertsdóttir forsprakki átaksins Á Pólinn fyrir jólin á góðri stundu upp á fjallstindi á liðnu sumri.

„Hreyfing og líkamsrækt hefur verið mitt geðlyf í mörg ár og þó að hvorugt sé lækning né 100% forvörn hefur hreyfingin hjálpað mér gríðarlega mikið,“ segir Inga María Ellertsdóttir forsprakki átaksins Á Pólinn fyrir jólin og stendur yfir um þessar mundir hjá Grófinni geðrækt á Akureyri. Þessi hreyfiáskorun felst í því að þátttakendur skrá niður þá vegalengd sem þeir fara, gangandi, hjólandi, á skíðum, í sundi eða hvernig svo sem þeir fara. „Og saman ætlum við að ferðast þá vegalengd sem samsvarar leiðinni frá Jólahúsinu í Eyjafjarðarsveit að Norður-Pólnum,“ segir hún. Þátttakendur hafa nú lokið þremur fjórða hluta leiðarinnar, en í heild er leiðin 2618 kílómetrar. Þátttakendur eru þeir sem stunda eða hafa stundað Grófina eða starfa þar.

Svipuð áskorun var í gangi á liðnu sumri með yfirskriftinni „Grófin gengur Hringinn“ og miðaði að því að ná þeirri vegalend sem Hringvegurinn um Ísland er. Það markmið náðist og gott betur,  vegalengdin út í Grímsey bættist við líka. Vel var tekið í þá áskorun og þátttakendur voru ánægðir með hana. „Fólki fannst gaman að taka þátt og hvetjandi að fara út að hreyfa sig, þannig að flestir sem voru með í sumar hoppuðu á vagninn núna líka auk þess sem nýir bættust við.“ Alls eru 16 manns skráðir í áskorunina nú og segir hún hvern og einn gera það sem hann treystir sér til, „og það er nóg.“

Sjálf hefur Inga María tekið þátt í áskorunum sem aðrir hafa skipulagt, m.a. að ná vegalend frá New York til ýmissa staða, Alaska, Akureyrar og Rio De Janeiro, en þátttakendur í þeim áskorunum voru allir staðsettir í Bandaríkjunum utan hana sjálfa. „Það getur hver sem er farið hvert sem er á jörðinni,“ segir hún.

Valdeflandi og styrkjandi að setja sér markmið og ná þeim

„Ég byrjaði á þessu þegar kórónuveiran geysaði og líkamsræktarstöðvar lokaðar, og skemmst frá því að segja að þetta hélt mér gangandi,“ segir hún. „Upphaflega markmið mitt með þessu var einfalt, að hvetja fólk til að hreyfa sig og hjálpa því að setja sér markmið tengd hreyfingu. Þetta er eitt stórt markmið sem við vinnum að saman, að komast á pólinn fyrir jólin, en ég hef líka hvatt til þess að þátttakendur setji sér persónuleg og minni markmið, eins og að ná ákveðnum kílómetrafjölda á viku eða bara eitthvað smávegis á hverjum degi. Einhverjir hafa tekið það upp og mér finnst það frábært. Það er virkilega valdeflandi og styrkjandi að setja sér markmið og ná þeim, hversu lítil og einföld sem þau kunna að virðast í annarra augum, þá er stundum um risastóran áfanga fyrir viðkomandi að ná,“ segir Inga María.

Safna fé til að styrkja reksturinn

Grófin geðrækt starfar á grunni frjálsra félagasamtaka og er áskorunin einnig leið til að sækja styrki út í samfélagið. Umsvif í Grófinni hafa aukist á undanfarin misseri og aðsókn aukist og fylgir því aukinn rekstrarkostnaður. Hugmyndir eru einnig uppi um að auka þjónustuna enn meira en nú og það kostar líka sitt. Fyrirtæki og einstaklingar hafa sýnt aukna velvild á liðnum árum í garð úrræða sem snúa að geðheilsu og geðheilbrigði og gefst þeim sem eru aflögufærir nú kostur á að styrkja þetta framtak með áheitum.

Nýjast