Alls komu 112 nýir einstaklingar í viðtöl hjá Aflinu, miðstöð fyrir þá sem orðið hafa fyrir kynferðis- eða heimilisofbeldi. Ekki hafa fleiri nýir komið inn á einu ári frá því árið 2018. Alls nutu 163 skjólstæðingar þjónustu Aflsins á liðnu ári. „Einstaklingar sem sækja þjónustu Aflsins eru ekki varnarlaus fórnarlömb ofbeldis heldur einstaklingar sem hafa lifað af ofbeldi,“ segir Erla Hrönn Hörpu Unnsteinsdóttir verkefnastýra Aflsins.
Starfsemi Aflsins fer að stærstum hluta fram í húsakynnum þess við Aðalstræti 14 ár Akureyri, en að auki er boðið upp á þjónustu við skjólstæðinga annars staðar. Skrifað hefur verið undir samning við skóla- og félagsþjónustu Austur – Húnavatnssýslu og í kjölfarið býður Aflið upp á reglulega ráðgjöf á Blönduósi. Starfsemin hófst nú í vikunni. Erla Lind Friðriksdóttir ráðgjafi á skrifstofu Aflsins á Akureyri sinnir Blönduósi og segir mikilvægt að bjóða upp á viðtöl í heimabyggð eða sem næst henni til að auðvelda fólki að nálgast hana. Þjónusta hefur verið í boði á Húsavík í rúmt ár. Áður sinntu ráðgjafar frá Akureyri skjólstæðingum fyrir austan, en nú hefur heimamaður tekið við því kefli og býður Aflið upp á ráðgjöf á Egilsstöðum og þarf því ekki að aka langar leiðir. Erla Lind segir að til að byrja með verði boðið upp á viðtöl á Blönduósi einu sinni í mánuði en reynist þörfin meiri verði aukið við.