Geirneglt – bók um Tréverk á Dalvík
Sextíu ára saga byggingarfyrirtækisins Tréverks á Dalvík er komin út í bókinni Geirneglt sem Óskar Þór Halldórsson hefur skrifað. Útgefandi er Svardælasýsl forlag. Þetta er mikil bók að vöxtum, um 300 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt af gömlum og nýjum myndum.
Þetta rótgróna byggingarfyrirtæki var stofnað á Dalvík 1. október 1962. Fyrstu áratugina var áherslan á að sinna heimamarkaði á Dalvík og í nærsveitum en síðustu áratugina hefur fyrirtækið einnig haslað sér völl í fjölbreyttum og stórum sem minni verkum utan byggðarlagsins, fyrst og fremst á Akureyri.
Félagið stofnuðu Dalvíkingarnir Aðalberg Pétursson, Bragi Jónsson, Hallgrímur Antonsson og Ingólfur Jónsson og Sveinn Jónsson í Kálfsskinni á Árskógsströnd. Ingólfur var fyrsti framkvæmdastjóri Tréverks og gegndi starfinu til ársins 1981 en þá tók Bragi Jónsson við og var framkvæmdastjóri í átta ár, til ársins 1989 er Björn Friðþjófsson, núverandi framkvæmdastjóri, tók við. Auk Björns eru núverandi eigendur félagsins Guðmundur Ingvason, Hafþór Gunnarsson, Ívar Örn Vignisson, Kristján Elí Örnólfsson og Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson.
„Ég leitaði víða ritaðra heimilda og auk þeirra ræddi ég við fjölmarga sem lögðu grunninn að fyrirtækinu og hafa starfað lengi hjá því og einnig núverandi starfsmenn. Þetta hefur verið bráðskemmtilegt ferðalag og ég er mjög ánægður með hvernig til hefur tekist. Mér finnst þetta vera falleg og stílhrein bók og ég er ánægður með það. Í þeim bókum og ritum sem ég hef sent frá mér legg ég áherslu á að gefa myndunum gott rými því staðreyndin er sú að myndir segja svo miklu meira en mörg orð. Og það á ekki síst við um byggingarlist. Það eru margar gamlar myndir í bókinni sem sumar hafa aldrei áður sést og einnig eru flottar drónamyndir af mörgum af stærri byggingum Tréverks sem Hilmar Friðjónsson tók fyrir bókina,“ segir Óskar Þór Halldórsson.
Geirneglt verður hvorki seld í bókaverslunum né annars staðar. Í tilefni af 60 ára afmælinu fyrir rösku ári síðan vill Tréverk gefa bókina öllum sem áhuga hafa á þessari sögu, á meðan birgðir endast. Þeim sem áhuga hafa að eignast bókina er bent á að hafa samband við Tréverk á Dalvík og einnig verður hægt að nálgast bókina í versluninni Víkurkaup á Dalvík frá og með næsta mánudegi, 27. nóvember. Óskar Þór og stjórnendur Tréverks verða á mánudaginn í Víkurkaup kl. 15-17 og árita og afhenda bókina.
Óskar Þór Halldórsson skráði.
Bygging orlofshúsanna á Illugastöðum undir lok sjöunda áratugarins var fyrsta stóra verkefni Tréverks.
Tréverk byggði bæði Sundlaug Dalvíkur og áfast íþróttahús.
Stærsta verkefni Tréverks á Akureyri var bygging fjölbýlis- og raðhúsa á Búsetareitnum í Naustahverfi.
Tréverk byggði bróðurpart skólahúsa Dalvíkurskóla.