Eitt aðaleinkenni þjóðkirkjunnar, kirkju þjóðarinnar er hún að hún hefur þá grunnskyldu að veita kirkjulega þjónustu um allt land. Henni ber að þjóna fólki í sveit og borg, í þorpum og bæjum, þeim sem búa afskekkt og þeim sem búa þétt. Þetta er ekki einfalt hlutverk því þegar upp er staðið er það fjárhagurinn sem stýrir því hversu breið og öflug sú þjónusta er. Sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna hafa verið skert af hálfu ríkisins frá því í hruninu og jafnvel eitthvað fyrr. Þetta hefur gert það að verkum að erfiðara er að halda úti þjónustu safnaða og halda við kirkjubyggingum sem margar hver eru menningarleg þjóðarverðmæti. Þá hefur vígð þjónusta verið skert þar sem kirkjan hefur þurft að fara í sparnaðaraðgerðir auk þess sem fólksflutningar hafa orðið á ákveðnum svæðum.