20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Að þora að vera hræddur
Nú haustar og í haustmyrkrinu leynast oft myrkraverur og alls konar furðuleg fyrirbæri sem skjóta okkur stundum skelk í bringu. Flest tengjast þau reyndar hrekkjavöku og ýmiskonar skálduðum hryllingi þannig að það er lítið mál að sýna hugrekki og láta sem ekkert sé. Eða hvað, erum við kannski hræddari en við sýnumst, og hvenær erum við annars hugrökk?
Hugrekki er stundum talið vera það að hræðast ekki neitt. Sem er hægara sagt en gert þar sem allir menn eru fæddir með það innbyggt í taugakerfið sitt að finna fyrir ótta. Það er lífsnauðsynlegt til að við getum lifað af og við eigum það sameiginlegt með öðrum dýrategundum. Svo fer það auðvitað eftir aðstæðum okkar og lífsreynslu hvað við óttumst meira en annað.
Samt er enn verið að halda því að okkur að við eigum ekki að vera hrædd. „Það er ekkert að óttast“ er stundum sagt við börnin en það ber oft þann árangur að þau halda að þau megi ekki vera hrædd. En börn eru yfirleitt skynug og vita vel að það er margt að óttast. Þau horfa á fréttir eins og við, þau eru vöruð við allskyns hættum í samfélaginu og þau þurfa að fá að vera hrædd. Eins og við öll. Það að barn eða fullorðin manneskja upplifi ótta af og til, eru því harla eðlileg viðbrögð við hættulegum heimi. Það er hinsvegar mikilvægt að fá að samþykkja óttann, ræða um hann og gefa honum tilverurétt. Stundum getum við meira að segja gert eitthvað við óttavekjandi aðstæðum og þannig dregið úr óttanum,- en stundum ekki. Og þá er ekki annað að gera en að bera óttann með sér, hannþarf vissulega sitt rými eins og aðrar tilfinningar.
Hugrekki er líklega fólgið í því að gera það sem okkur er mikilvægt, þrátt fyrir óttann. Deila óttanum með öðrum og berskjalda okkur sem þær viðkvæmu og hræddu manneskjur sem við erum og það þarf hugrekki til þess. Við erum hugrökk og sterk þegar við viðurkennum óttann en látum samt ekki hugfallast.
Jafnvel þótt að við séum svo óttaslegin að við þurfum að slökkva á sjónvarpsfréttunum og loka augum og eyrum fyrir hörmungunum sem dynja á okkur, -jafnvel þótt við gerum ekki meira en fara á fætur og sinna okkar hversdagslegu verkefnum,-jafnvel þótt að við treystum okkur ekki í stórar orustur. Já jafnvel
þótt við gerum ekki annað en setja annan fótinn fram fyrir hinn og munum eftir að draga andann og láta ekki hugfallast. Þann daginn.
Fræðikonan og höfundurinn Brené Brown sem öðrum fremur hefur rannsakað fyrirbæri í mannlegri hegðun og tilfinningum, s.s.berskjöldun, skömm og samkennd orðar það þannig að
„Berskjöldun snýst ekki um að vinna eða tapa, heldur að hafa hugrekki til að mæta til leiks og leyfa öðrum að sjá hver viðraunverulega erum“.
Ég þekki það á eigin skinni að það getur verið erfitt. Ég veit vel að það er mikilvægt að bera höfuðið hátt og vera sjálfri mér trú en stundum finnst mér ég ekki einu sinni ráða við það. Ég finn fyrir sektarkennd yfir því að taka ekki virkan þátt í mikilvægum málefnum og „gera ekki meira“. En við verðum að velja vel hvaða orustur við heyjum og stundum eigum við ekki styrk til að gera mikið meira en að mæta til leiks og viðurkenna okkur sjálf. Ég veit að margir, ekki bara ég, myndu
vilja gera meira fyrir börn í stríðshrjáðum löndum, fyrir fólk á flótta, fyrir nærsamfélagið, fyrir heimilislausa, fyrir réttlætið. Sem betur fer er verið að heyja slíka baráttu víða og sem betur fer er röddin okkar góð og gild jafnvel þótt við tökum ekki alltaf beinan þátt í baráttunni. Við getum oft lagt eitthvað af mörkum eins og að skrifa og tala fyrir því sem okkur er mikilvægt.
Við getum tekið eftir og vakið athygli á málstað eða baráttu hvort sem hún er í okkar þágu eða ekki. Við getum hunsað röddina sem hvíslar að okkur að okkar skoðun eða okkar rödd sé minna virðien annarra og getum verið öðrum fyrirmynd í því að láta skoðanir okkar heyrast og óttann sjást. Það er í fínu lagi að vera lítill og hræddur enginn kemst hjá því að líða þannig af og til. Þá er gott að eiga góða vini því við erum sterkari með vinum okkar, heldur en þegar við erum alein. Þetta vita börnin en við sem erum fullorðin gleymum þessu svo alltof oft. Mætum til leiks sem við sjálf og leyfum heiminum að sjá okkur. Í því felst hugrekki og í því felst samkennd gagnvart öðru fólki. Og þegar vel gengur finnum við styrk til að gera meira en bara að gangast við óttanum, þá getum við barist við fyrir því sem skiptir okkur máli.
Forseti Íslands Halla Tómasdóttir segir í bókinni sinni „Hugrekki til að hafa áhrif“ m.a. þetta:
„Ég hef þá einlægu trú að allar breytingar byrji með einni manneskju sem hefur hugrekki til að hafa áhrif og fær fleiri með sér í lið. Ég vona að þú finnir þinn stað, þinn málstað til að leiða breytingar til góðs og minni þig á að allar breytingar byrja með góðu fólki sem ákveður að starfa með öðru góðu fólki að því að gera heiminn eilítið betri í dag en í gær".