6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Bakslagið í hinsegin baráttunni í fókus á jafnréttisdögum í HA
Dagana 6.-9. febrúar eru jafnréttisdagar haldnir í öllum háskólum landsins, þar á meðal Háskólanum á Akureyri þar sem fjölbreytt úrval viðburða verður í boði út vikuna. Ókeypis er inn á alla viðburðina og öll hvött til að mæta sér til skemmtunar og fróðleiks.
Jafnréttisdagar háskólanna fanga jafnréttismál í sinni víðustu mynd. Bakslagið í hinsegin baráttunni, netið, kvenhatur og samsæriskenningar, stéttaskipting í íslensku málsamfélagi, umræður um vald, málsmeðferð stjórnvalda í málum flóttakvenna, jafnréttisvöfflur, upplifun og aðgengi jaðarhópa að háskólanámi, einhverfuhittingur, öráreiti og feminísk sjálfsvörn sem forvörn við kynbundnu ofbeldi er aðeins brot af afar veglegri dagskrá Jafnréttisdaga sem fara fram í háskólum landsins og víðar.
Jafnréttisdagar eru eitt stærsta samstarfsverkefni háskólanna. Þeir hafa undanfarin tvö ár farið fram á netinu vegna kórónuveirufaraldursins en afar gleðilegt er að geta nú aftur boðið áhugafólk um jafnréttismál velkomið á viðburði í háskólunum sjö. Í boði verða þó einnig fjölmargir viðburðir í streymi.
Jafnréttisdagar verða settir í hádeginu mánudaginn 6. febrúar með viðburði á vegum samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna. Þar munu Bjarni Snæbjörnsson leikari, skemmtikraftur og rithöfundur og Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í hinsegin- og kynjajafnréttismálum á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, ræða það bakslag sem orðið í hinseginbaráttunni undanfarin misseri. Viðburðurinn verður í beinu streymi og opinn öllum.
Í Háskólanum á Akureyri fara svo fram eftirfarandi viðburðir í vikunni:
Þriðjudaginn 7. febrúar: Jafnréttislöggjöfin og málsmeðferð stjórnvalda í málum kvenna á flótta, Valgerður Guðmundsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Akureyri flytur erindi milli kl. 11:50-12:50 (Háskólinn á Akureyri, M-101; Einnig í streymi).
Miðvikudaginn 8. febrúar: Hvers vegna skiptir UN Women máli? María Rut Kristinsdóttir, kynningarstýra UN Women flytur erindi milli kl. 12:00-13:00 (Háskólinn á Akureyri, M-101).
Fimmtudaginn 9. febrúar: Jafnréttisvöfflur í Miðborg í Háskólanum á Akureyri milli klukkan 9-10, en þar verða einnig kynningarbásar frá félagsamtökum og stofnunum sem vinna á sviði jafnréttismála.
Fimmtudaginn 9. febrúar: Ráðstefnan „Vald, forréttindi og öráreitni“ sem háskólarnir standa saman að stendur svo yfir frá kl. 10-16 og hefst með málstofu í hátíðarsal Háskólans á Akureyri (og í streymi) milli kl. 10:00 og 11:30 undir yfirskriftinni Að vera hinsegin í námi og starfi. Þar flytur Elín Díanna Gunnarsdóttir aðstoðarrektor HA ávarp og á eftir fylgja erindi frá Ingileif Friðriksdóttur, sjónvarps- og fjölmiðlakonu og María Rut Kristinsdóttur, kynningarstýru UN Women og Vilhjálmi Hilmarssyni hagfræðingi hjá BHM. Að erindum loknum fara fram panelumræður ásamt Önnu Lilja Björnsdóttur, sérfræðingi hjá Jafnréttisstofu. Fundarstjóri er Kristín Jóhannesdóttir, Sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyarbæjar.
Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og öll velkomin
Öll eru jafnframt hvött til að fylgjast með Jafnréttisdögum á samfélagsmiðlum
Facebook: jafnréttisdagar
Instagram: jafnréttisdagar
Twitter: jafnrettisdagar