Leikskólinn Álfaborg í Svalbarðsstrandahreppi 30 ára
Haldið var upp á 30 ára afmæli leikskólans Álfaborgar í Svalbarðstrandarhreppi í gær, en hann tók til starfa 15. mars árið 1993. Hann var til að byrja með í húsnæði kaupfélagsins sem þá var hætt rekstri. Tillögur um nafn leikskólans voru gerðar meðal foreldra og varð Álfaborg fyrir valinu. Á fyrstu árunum var rými fyrir 20 börn í leikskólanum. Starfsemin var flutt í gamla grunnskólann árið 1995.
Bryndís Hafþórsdóttir leikskólastjóri á Álfaborg segir að í fyrstu hafi ein deild verið starfandi við leikskólann og var hún fyrir tveggja til sex ára börn. Haustið 2005 var 150 fermetra nýbygging tekin í notkun við Álfaborg og urðu í kjölfarið miklar breytingar til batnaðar í starfsemi skólans. Ári síðar var ráðist í endurbætur á eldri hluta skólahúsnæðisins og skólarnir, leik- og grunnskóli m.a. aðskildir með sérinngöngum í hvorn skóla auk þess sem ný gólfefni voru lögð og hiti settur í gólf auk fleiri lagfæringa. Þá nefnir Bryndís að um áramót 2005 og 2006 hafi breyting verið gerði á inntökualdri barna og hann færður niður í 18 mánaða aldur. Frá haustinu 2016 var farið að taka inn börn strax eftir fæðingarorlof á sérstakri ungbarnadeild við leikskólann. Leik- og grunnskóli í Svalbarðsstrandarhreppi voru sameinaðir í eina stofnun árið 2015
„Við erum með tvær deildir við skólann núna, Hreiður fyrir börn frá 12 mánaða aldri og Lundur er fyrir börn frá 2ja ára aldri, en sú deild skiptist upp í tvær heimastofur og er önnur fyrir tveggja til fjögurra ára börn og hin fyrir þau eldri, fjögurra til sex ára,“ segir Bryndís. Tæplega 40 börn eru á Álfaborg um þessar mundir.
Umhyggja, virðing, metnaður og gleði
Allt nám og kennsla við skólann byggir á skólastefnu Svalbarðsstrandarhrepps en fyrir hendi er skólasáttmáli fyrir leik – og grunnskólann, Valsárskóla sem endurspeglar markmið og stefnu skólanna. Í honum kemur fram að starfsfólk og nemendur vilji að öllum líði vel í skólanum, allir séu öruggir, sinni sínu hlutverki og nýti hæfileika sína til góðs. Einkunnarorð beggja skóla er umhyggja, virðing og metnaður og gleði.
Þá nefnir Bryndís að í skólastefnunni felist einnig að byggja upp sjálfsaga, þ.e. að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga. „Þetta er aðferð sem ýtir undir ábyrgðarkennd og gerir börnum kleift að átta sig á styrkleiknum sínum og þörfum. Það er líka lögð á það áhersla að þau læri af mistökum sínum og nýti reynsluna á jákvæðan hátt.“
„Hjá okkur er gleðin ríkjandi í daglegu amstri, hún endurspeglast í samskiptum sem einkennast af vinskap, umburðarlyndi og friðsemd,“ segir Bryndís og bætir við að allir leggi sig fram um að vera jákvæðir gagnvart þeim verkefnum sem verið er að fást við hverju sinni og horfa ávallt á björtu hliðar tilverunnar. „Við höfum alltaf val um hvernig við ætlum að takast á við aðstæður, hvað viðhorf við tileinkum okkur til annara og hjá okkur er gleðin okkar leiðarljós. Vissulega gerum við okkur grein fyrir að aðstæður eru misjafnar og við ólík, allir geta átt erfiðan dag,“ segir Bryndís.
Krummarnir fara í grunnskólann
Elsti árgangur Álfaborgar gengur undir nafninu Krummar og má segja að Krummastarfið sem fram fer í leikskólanum skapi honum ákveðna sérstöðu. Bryndís segir að undanfarin tvö ári hafi sá háttur verið hafður á að börn í elsta árgangi fara einn dag í viku í grunnskólann með sínum hópstjóra og vinna með krökkum og kennara í 1. bekk.
„Við fáum okkur morgunhressingu í leikskólanum en höldum svo yfir í Valsárskóla og tökum þátt í lestrarstund með krökkunum í 1. bekk. Eftir sameiginlegan morgunmat allra í matsal skólans er komið að því að blanda krummum og börnum úr bekknum saman í þrjá hópa sem vinna sameiginlega að verkefni sem tengist yfirleitt einhverju ákveðnu þema. Þetta köllum við Leikur að læra. Eftir frímínútur er farið í íþróttir og hádegismat og síðan í hand- og myndmennt og tónmennt áður en haldið er yfir í leikskólann á ný,“ segir Bryndís. „Börnin venjast því að taka þátt í grunnskólastarfinu og eru yfirleitt öll orðin nokkuð brött og ófeimin í umgengni í skólanum þegar þau hefja sína skólagöngu.“
Bryndís segir að í fjölmörg ár hafi tveir elstu árgangar leikskólans farið í útiskóla og aðra hvora viku slást þau í för með tveimur yngstu bekkjum grunnskólans. „Börnin læra á nærumhverfið, hvaða hættur eru fyrir hendi, farið er yfir umferðarreglur, náttúru, dýralíf svo eitthvað sé nefnt. Þetta hefur gefist mjög vel.“