Byggðarráð og sveitarstjórn Norðurþings hefur reglulega fjallað um málefni Húsavíkurflugvallar og áætlunarflugs til Húsavíkur. Húsavíkurstofa og stéttarfélagið Framsýn sömuleiðis. Það er mikilvægt að halda uppi reglulegu áætlunarflugi til Húsavíkur fyrir heimafólk og atvinnulíf. Það ríkir fákeppni í innanlandsflugi og eru leiðir innanlands styrktar með ríkisframlagi. Það gildir ekki um Húsavík.
Í Þingeyjarsýslu eru stór verkefni fram undan eins og uppbygging í landeldi á fiski, Grænna iðngarða á Bakka, tvöföldun Þeistareykjavirkjunar og í ferðaþjónustu. Reglulegt áætlunarflug og greið loftleið milli höfuðborgarsvæðisins og Húsavíkur er ein af undirstöðum þess að vel takist til. Fulltrúar Norðurþings og stéttarfélagsins Framsýnar eiga fund með fulltrúum flugfélagsins Ernis næstkomandi mánudag vegna málsins.
Byggðarráð Norðurþings hefur komið þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórn flugfélagsins Ernis, Isavia sem og stjórnvöld. Mikilvægi flugleiðarinnar til Húsavíkur og Húsavíkurflugvallar ætti að vera öllum ljóst sem hlekkur í frekari uppbygging og vexti svæðisins. Til að svo megi vera þarf aðkomu ríkisvaldsins rétt eins og á öðrum flugleiðum.