Fyrsta meistaravörnin í stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann á Akureyri

Fyrsta meistaravörnin í stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann á Akureyri í samvinnu við Háskólann í Reykjavík fór fram í byrjun vikunnar. Þar varði Hildur Andrjesdóttir lokaverkefni sitt; Stafræn heilbrigðistækni: Rannsókn á sjálfvirknivæðingu og sjónarhorni heilbrigðisstarfsmanna á Akureyri.
Rannsókn Hildar er tvíþætt, annars vegar er skoðuð upplifun heilbrigðisstarfsfólks á Sjúkrahúsinu á Akureyri á núverandi tækniumhverfi, tækifæri til úrbóta eru greind og skoðað hvernig hægt er að nýta tæknina til að einfalda verkferla með sjálfvirknivæðingu. Hins vegar var fylgst með þróun hugbúnaðarlausnarinnar HomeVital Harmony sem hönnuð var í samstarfi við Heimahjúkrun á Akureyri og upplifun starfsfólks á þátttöku þeirra í því ferli skoðuð.
Áhugaverður kostur
Ólafur Jónsson verkefnastjóri við tölvunar- og tæknifræði í Háskólanum á Akureyri segir að samstarf við HR hafi verið afar farsælt og nú þegar hafa verið útskrifaði um 80 tölvunarfræðingar á svæðinu í námi sem skólarnir eru í samstarfi með. „Þessi nýja viðbót í samstarfinu við HR er mjög áhugaverður og spennandi kostur á framhaldsnámi fyrir bæði heilbrigðismenntað fólk sem og tölvunarfræðinga eða tæknimenntað fólk. Auknir námsmöguleikar á svæðinu eru af hinu góða,“ segir hann er í þessu nýja námi, stafræn heilbrigðistækni er hugmyndin að leiða saman þessa tvo hópa og fá út öflug teymi og nýsköpun í heilbrigðisgeiranum.
Gott bakland
Bendir Ólafur á að baklandið á Akureyri sé gott, þar sé öflugt sjúkrahús og sama megi segja um heilsugæsluna og fjölmargt starfsfólk á starfi innan heilbrigðisgeirans norðan heiða. Þá séu heilbrigðisvísindi kennd við Háskólann á Akureyri auk þess sem fyrirtæki starfi innan þessa sviðs. „Allt styrkir þetta námið og gerir að góðum valkostir fyrir þá sem eru að leita að öflugu námi til framtíðar. Staðan er þannig að sárlega vantar inn í atvinnugreinina fólk sem bæði skilur þarfir heilbrigðiskerfisins og hvað tæknilaunir hafa upp á að bjóða, þ.e. hvenær nýjar tæknilausnir geti bætt ferla, greiningar og eftirfylgni,“ segir hann.
Ólafur Jónsson verkefnastjóri við tölvunar- og tæknifræði í Háskólanum á Akureyri
Mikil tækniskuld
Með því að leiða saman í námsgreininni fólk sem hefur sérþekkingu á sitt hvoru sviðinu verður til eins konar brú á milli tveggja heima. Ljóst sé að mikil tækniskuld sér til staðar innan heilbrigðiskerfisins og allar góðar tæknilausnir kærkomnar. Staðan er sú að enn sé víða verið að gera alls kyns verk handvirkt sem hægt væri með snjallri lausn að gera á skilvirkari hátt. „Það er verið að höndla með viðkvæmar persónuupplýsingar og því nauðsynlegt að vanda vel til verka. Lausnir sem hafa öryggi í fyrirrúmi, skilvirkni og færa okkur fram í þróuninni eru mjög brýnar í þessum geira.
„Heilbrigðissviðið er drekkhlaðið verkefnum og það er ljóst að vaxandi fjöldi fólks þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Þetta nám opnar því á fjölmarga möguleika fyrir öflugt fólk, verkefnin eru næg,“ segir Ólafur.