Lokaorðið - Fnykur
Fyrir nokkrum árum var haldið í bæjarferð, með leikskólabarn og hormónafylltan ungling í aftursætinu. Ferðin gekk vel framan af, rifrildin í aftursætinu með minna móti og enginn bílveikur. Það er varla hægt að biðja um meira. Á miðri Svalbarðsströndinni fer bílstjórinn (Keli) að skammast yfir ógurlegum fnyk í bílnum. Þetta er nú meiri skítaksturinn alltaf hérna á ströndinni, örugglega nýbúið að bera á kúamykju eða hænsnaskít, eða bara hvort tveggja, þvílíkt og annað eins. Unglingurinn ranghvolfir augunum og frúin hristir hausinn; hvað er maðurinn eiginlega að tala um? Enginn annar í bílnum finnur lyktina. Merkingarþrungin þögn nokkra stund og þegar komið er fram hjá Svalbarðseyri telur bílstjórinn óhætt að opna glugga til að lofta út úr bílnum.