Krefjandi starf en líka gefandi og skemmtilegt

Elín Dröfn Þorvaldsdóttir atferlisfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri. Hún ein a…
Elín Dröfn Þorvaldsdóttir atferlisfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri. Hún ein af fáum starfandi atferlisfræðingum á norðanverðu landinu.

Elín Dröfn Þorvaldsdóttir er ein af fáum starfandi atferlisfræðingum á norðanverðu landinu. Hún flutti heim til Íslands frá Bandaríkjunum í lok síðastliðins sumars og hóf störf á Heilsu-og sálfræðiþjónustunni. Þar sinnir hún meðferð barna og ungmenna með hegðunarvanda, einhverfu eða námsvanda.

 Elín Dröfn ólst upp á Kambhóli í Hörgársveit. Eftir stúdentspróf stundaði hún sálfræðinám við Háskóla Ísland og lauk BSc gráðu árið 2016. „Ég vann með námi í leikskóla og þar heyrði ég fyrst af þessari grein. Það má segja að þar hafi neistinn kviknað og ákvað að skoða betur um hvað hún snérist. Mér leist vel á og eftir að ég ræddi við prófessor í atferlisfræði á ráðstefnu Samtaka atferlisgreiningar á Íslandi má segja að ég hafi verið staðráðin í að leggja þetta nám fyrir mig og í framhaldinu að starfa við greinina,“ segir hún.

Hún hélt til Bandaríkjanna þar sem hún tók meistaranám í hagnýtri atferlisfræði við Western New England University í Massachusetts og lauk því árið 2019. Samhliða meistaranáminu starfaði hún við The New England Center for Children, sem er skóli sem bíður upp á alhliða þjónustu fyrir börn með einhverfu, bæði í skólanum og á búsetukjörnum á vegum skólans.

Sjö ár í Bandaríkjunum

Eiginmaður Elínar er Akureyringurinn Bjarki Guðmundsson. „Okkur leið vel úti í Bandaríkjunum, það tók smá tíma að finna annan og öðruvísi takt en við vorum vön á Íslandi, menningin er á margan hátt með ólíkum hætti í þessum tveimur löndum, en við vorum furðu fljót að falla inn í bandaríska samfélagið. Umhverfið þarna er mjög aðlaðandi og gott, Boston er frábær og yndisleg borg og við vorum bara hæstánægð. Höfðum bæði margvísleg krefjandi verkefni að takast á við þannig að það má segja að árin hafi liðið hratt. Við ætluðum í fyrstu að vera úti í eitt ár til viðbótar eftir að ég útskrifaðist, en bættum svo alltaf einu og einu við og í lokin voru við búin að búa úti í sjö ár,“ segir Elín. Í mars í fyrra eignuðust þau dóttur og segir hún að í og með hafi það haft áhrif á aukinn vilja til að flytja á ný heim.

„Við ætlum ekki endilega að koma alla leið til Akureyrar, þó okkar rætur séu á því svæði. En þegar Bjarka bauðst tækifæri á að takast á við nýtt starf við Tónlistarskólann á Akureyri ákváðum við að það væri of gott til að sleppa því,“ segir Elín.

Af gólfinu upp í yfirmannsstöðu

Elín starfaði öll árin sem þau bjuggu í Bandaríkjunum hjá The New England Center for Children, en um er að ræða stóran kjarna með fjölda skjólstæðinga og starfsmanna. Þar er starfandi skóli fyrir nemendur sem einnig höfðu búsetu á svæðinu. „Þetta er stórt og umfangsmikið og fjöldinn allur af fólki sem starfar þarna, þar á meðal margir atferlisfræðingar,“ segir hún og bætir við að hún hafi byrjað „á gólfinu“ ef orða mætti það á þann veg en í lok tímans var hún yfirmaður teymis sem bar ábyrgð á greiningu hegðunarvanda, innleiðingu meðferða og þjálfun starfsfólks sem vann með börnunum en alls voru 25 manns í teyminu. Auk þess að ljúka meistaraprófi í hagnýtri atferlisfræði lauk Elín einnig sérfræðivottun í atferlisgreiningu árið 2021 og veitir hún nemum í atferlisgreiningu handleiðslu.

„Börnin og ungmennin eru á þessum stað af því það er ekki kostur að þau búi heima hjá sér og mörg áttu við umfangsmikinn hegðunarvanda að etja. Mitt hlutverk var að sníða íhlutun fyrir mína nemendur sem stuðlaði að bættum lífsgæðum með því að minnka skaðlega hegðun og efla samskipta- og aðlögunarhæfni í dagleglu lífi, með velferð einstaklingsins í fyrirrúmi.“ segir Elín.

Læra aðra hegðun

„Þetta var mjög krefjandi starf en að sama skapi líka gefandi og skemmtilegt. Það er gaman að sjá þegar okkar skjólstæðingar taka framförum, þegar maður sér að verkefnið er að skila árangri,“ segir hún. Allt starfið byggir á miklu og góðu samstarfi við foreldra eða forráðamenn sem þekkja börn sín eða ungmenn best.

„Aðalmarkmið atferlisgreiningar er að skilja hvernig megi spá fyrir og hafa áhrif á hegðun einstaklinga. Það þarf að skoða vel hvað það er sem að veldur hegðun einstaklingsins til að hægt sé að grípa inn í með viðeigandi hætti, með það að leiðarljósi að auka lífsgæði einstaklingsins. Rannsóknir á hegðun hafa sýnt að hún er að stórum hluta lærð og henni er viðhaldið af umhverfi okkar, því er staðan oft þannig að það er margt sem við getum gert til að hafa áhrif á hana“

Elín segir að hér heima séu viðfangsefnin af svipuðum toga þó umhverfið sé annað. „Ég fór hægt af stað í haust en verkefnalistinn er smá saman að lengjast eftir því sem á líður,“ segir hún en Heilsu- og sálfræðisþjónustan er í samstarfi við nokkur sveitarfélög í kring og hefur hún þegar tekið að sér verkefni í þeim öllum. „Það er mikilvægt að bjóða upp á aðstoð til þeirra sem eiga við t.d. hegðunarvanda að stríða og atferlisfræðin hefur verkfæri sem nýtast vel til að eiga við slíkan vanda.“

Nýjast