Beiðnir til Matargjafa hafa margfaldast undanfarna mánuði

„Staðan er mjög dapurleg og er þá vægt til orða tekið. Þetta er ellefta árið mitt í þessu og ég hef aldrei séð jafn slæma stöðu. Og fátt sem vekur upp bjartsýni á að hún lagist í bráð,“ segir Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum á Akureyri og nágrenni.
Beiðnir frá fólki um aðstoð hafa margfaldast undanfarna mánuði og ekkert lát þar á. Á sama tíma og það gerist hafa Matargjafir minna fé til ráðstöfunar, dregið hefur úr að almenningur leggi félaginu lið. „Staðan er bara þannig núna að margir sem áður voru í okkar þétta hópi bakhjarla eru sjálfir að lenda í fjárhagslegum vanda og hafa ekki svigrúm til að láta fé af hendi rakna,“ segir Sigrún. Og bætir við að staðan hafi verið mjög erfið þegar heimsfaraldur kórónuveikinnar geysaði, „en því miður þá er þetta verra núna. Ég hef bara aldrei upplifað verri stöðu. Manni verður illt í hjartanu yfir þessu.“
Draga úr stuðningi inn á Bónuskort
Sigrún segir að þar sem staðan sé með þessum hætti hafi Matargjafir neyðst til að draga úr stuðningi á innlögnum á Bónuskort. Um ein milljón króna var lögð inn á slík kort hjá skjólstæðingum Matargjafa i febrúar, en einungis söfnuðust tæplega 100 þúsund krónur. „Við höfum verið að nýta fé sem við fengum í tengslum við jólasöfnun en nú er það uppurið,“ segir hún.
Alls var í nýliðnum febrúarmánuði útdeilt um fjórum milljónum króna til þeirra sem óskuðu aðstoðar, þ.e. innlagnir á kortin, gjafabréf og matvæli. Sigrún segir Dominos gefa gjafabréf sem fara út til skjólstæðinga og Axelsbakarí gefur brauðmeti. Þessi fyrirtæki standi þétt við bak Matargjafa. Einnig fái félagið margskonar matvæli héðan og þaðan. Þá megi nefna að KFUM og K styrki með því að lána húsnæði endurgjaldslaust. Þá fékk Sigrún til liðs við sig átta öfluga sjálfboðaliða sem standa vaktina með henni.
Sárt að horfa upp á þessa neyð
Hún segir að hátt matarverð hér á landi og gríðarháir vextir sem verði til þess að húsnæðiskostnaður hefur aukist verulega undanfarin ár, geri að verkum að þeim fari fjölgandi sem ná ekki endum saman. „Því miður eru við að sjá að t.d. ungt fólk er að selja húsnæðið sitt því að það stendur ekki lengur undir afborgunum lána. Það er að raungerast að fólk er að missa húsnæði sitt. Það er mjög sárt að horfa upp á þá neyð sem margir þurfa að glíma við um þessar mundir,“ segir Sigrún.
Upplýsingar um reikningsnúmer Matargjafa má finna á facebook síðu þess en þeim sem eru aflögufærir er frjálst að leggja lið. Matargjafir er mannúðarfélag og hægt að nýta sér skattafrádrátt með stuðningi við það.