Dagskráin 5. mars - 12. mars - Tbl 9
Lokaorðið - Fnykur
Fyrir nokkrum árum var haldið í bæjarferð, með leikskólabarn og hormónafylltan ungling í aftursætinu. Ferðin gekk vel framan af, rifrildin í aftursætinu með minna móti og enginn bílveikur. Það er varla hægt að biðja um meira. Á miðri Svalbarðsströndinni fer bílstjórinn (Keli) að skammast yfir ógurlegum fnyk í bílnum. Þetta er nú meiri skítaksturinn alltaf hérna á ströndinni, örugglega nýbúið að bera á kúamykju eða hænsnaskít, eða bara hvort tveggja, þvílíkt og annað eins. Unglingurinn ranghvolfir augunum og frúin hristir hausinn; hvað er maðurinn eiginlega að tala um? Enginn annar í bílnum finnur lyktina. Merkingarþrungin þögn nokkra stund og þegar komið er fram hjá Svalbarðseyri telur bílstjórinn óhætt að opna glugga til að lofta út úr bílnum.
Við Leirubrúna byrjar söngurinn aftur: ,,Djöfulsins skítafýla er þetta!! Þið hljótið að finna þetta? Í alvöru, það er eitthvað blaut og dautt í bílnum, ég get svarið það, þetta er ógeðslegt!!". Unglingurinn sver af sér alla skítalykt, var alls ekkert að leysa vind og hafði víst farið í sturtu áður en var haldið af stað. Bílstjórinn heldur áfram að fjargviðrast yfir fýlu annað slagið í bæjarrápinu og á heimleiðinni. Búinn að leita undir bílsætum og skamma leikskólabarnið: (,,þú hefur örugglega skilið eftir eitthvað hálfétið hérna!!), finna gamla kókómjólkurfernu undir sæti og henda henni, en ekki skánar lyktin.
Mest þykir honum dularfullt að enginn skuli finna lyktina nema hann sjálfur og alveg sannfærður um að við hin séum:
a) að ljúga því að finna ekki lyktina og
b) að fela eitthvað illa lyktandi í bílnum.
Að kvöldi dags er rennt í hlað, börn send í bælið, Þorkell stendur andvarpandi í forstofunni þegar það rennur upp fyrir honum hver upptök lyktarinnar eru. Það eru skórnir. Skórnir hans.
Hann minntist ekki á málið meir, en bæði sokkar og skór fóru í ruslatunnuna þetta kvöld.
Þannig er þetta stundum, menn leita að upptökum og ástæðum alstaðar annarstaðar en hjá sjálfum sér, en ættu kannski fyrst og fremst að horfa í eigin barm.