Smá perla innan seilingar.

Arthur Gook tók þessa mynd, sennilega   í kringum 1908 og eins og sést þá var Sílabás eins og hann e…
Arthur Gook tók þessa mynd, sennilega í kringum 1908 og eins og sést þá var Sílabás eins og hann er í dag. (mynd frá Minjasafninu á Akureyri)

Einn af skemmtilegri útsýnisstöðum á Akureyri eru klappirnar fyrir ofan smábátahöfnina  í Sandgerðisbót. Í daglegu tali eru þær kallaðar Hannesarklappir, eftir Hannesi  Jóhannssyni sem bjó í Bárufelli. 

Gott er að nálgast þær á þrennan hátt. Hægt er að ganga út klappirnar frá Krossanesbraut, rétt norðan Sæbergs. Einnig er hægt að ganga frá Bárufelli upp klappirnar að norðan um ógreinilegan stíg. Þetta er ekki nema um 100 metrar.

Skemmtilegast er að nálgast þennan stað frá smábátahöfninni, en það er mjög góður stígur þaðan og upp að norðurenda klapparinnar og ganga þaðan í suður. Þetta er ekki langt, rétt um 400 metrar, en svolítið bratt, en þá er bara að fara hægt.

 Efst á  klöppunum er steyptur stólpi, minjar um gamalt landupplýsingamerki. Þaðan er frábært útsýni yfir smábátahöfnina, Óseyrina og Slippinn. Það sést inn alla Akureyri og fjallahringurinn okkar fallegi sést mjög vel. Súlur, Hlíðarfjall, Möðruvallafjöllin, Kaldbakur, Blámannshattur og að sjálfsögðu Vaðlaheiðin. Á leiðinni úr Bótinni og þarna upp er upplagt að leggja lykkju á leiðina og ganga niður í Sílabás, eða "Sílubás" eins og við krakkarnir kölluðum hann í gamla daga. Það má segja að þar sé eina ósnortna strandlengjan á Akureyri. Utan við básinn er Langitangi. Þar er aðdjúpt og því fínt að veiða þar með stöng.

 Þegar við vorum börn lékum við okkur mikið í Sílabás, sulluðum í sjónum og þeir allra hörðustu stukku í sjóinn af tanganum. Við hin horfðum á. Það var alltaf gott veður í Sílabás. Á hæðinni sunnan við Sílabás er steinn, stór og mikill, en þarna standa klappirnar upp úr gróðrinum. Við krakkarnir vorum viss um að þar byggju álfar. Yfirleitt gengum við hljóðlega þarna um, en stundum greip okkur stríðni og við hrópuðum og kölluðum og spörkuðum í steininn til að stríða álfunum. Aldrei hefndu þeir sín.

 Næst þegar þið eruð á rúntinum , skora ég á ykkur að keyra niður að smábátahöfn, leggja bílnum og ganga upp stíginn sem liggur skáhalt upp brekkuna  í norðvestur og virða fyrir ykkur fegurð þessa svæðis.

Efst á stígnum er bekkur sem hægt er að tilla sér á. Þetta tekur ekki langa stund, en er þess virði.  

Ekki gleyma myndvélinni.

Nýjast