Vor í Norðurþingi

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings skrifar.
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings skrifar.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings skrifar

Í sveitarfélaginu Norðurþingi hefur árið farið vel af stað. Það hefur verið mikið að gera á framkvæmdasviðinu en stærsta framkvæmdaverkefni ársins verður bygging Frístundar og félagsmiðstöðvar. Trésmiðjan Rein hlaut framkvæmd verksins eftir útboð og hefjast framkvæmdir á næstu vikum. Sorphirða á Húsavík og í Reykjahverfi var boðin út þar sem Terra skilaði inn lægsta boði. Nú er opið útboð skólaaksturs í sveitarfélaginu og á að skila inn tilboðum að morgni 5. maí. Hjá FSRE er unnið er að útboðsgögnum fyrir nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík og verður vonandi auglýst útboð á því í maí/júní.

Í skipulagsmálum er unnið að gerð nýs aðalskipulags og er verið að vinna úr athugasemdum sem bárust við vinnslutillögu. Deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar á svæðinu Stórhóll/Hjarðarholt er í vinnslu og stefnt á um 60 nýja íbúðakosti á því svæði. Verið er að auglýsa nýjar lóðir á Húsavík fyrir fjölbýli við Ásgarðsveg og Stóragarð. Nýverið tilkynnti Samkaup að fyrirtækið hefði tryggt sér leigu á Vallholtsvegi 10 þar sem fyrirhugað er að reisa nýja Nettóverslun innan fárra ára.

Carbfix bauð til íbúafundar og kynnti áform fyrirtækisins um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis fyrir svokallaðar Coda stöðvar við Húsavík. Unnið er að viljayfirlýsingu um verkefnið að samþykkt sveitarstjórnar. Norðurþing hélt íbúafund í Skúlagarði til að fara yfir áhrif sem gætu fylgt eldgosi í Vatnajökli/Bárðarbungu ef flóð færi af stað niður Jökulsá á Fjöllum. Þar voru kynntar niðurstöður Veðurstofunnar um flóðaútreikninga og gildandi viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Bárðarbungu. Verkefni brothættra byggða II, Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn, eru farin í gang og hefur verkefnastjórnin haldið tvo íbúafundi til að kynna verkefnin fyrir íbúum.

Skólahald hefur gengið með ágætum en sveitarfélagið rekur tvo leikskóla og þrjá grunnskóla. Á velferðarsviði er stýrihópur að störfum við endurskoðun skólastefnu Norðurþings og gerð læsisstefnu. Einnig er unnið að stefnu Norðurþings í íþrótta- og tómstundamálum en sveitarstjórn hefur lagt áherslu á málefni fjölskyldna, barna og ungmenna. Fjölskylduráð gerði samning við Íþróttafélagið Þingeying um hreyfiverkefni á þeirra vegum í samstarfi við Öxarfjarðarskóla. Mjög jákvætt verkefni og mikil ánægja með eflingu íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni í Öxarfirði undir forystu íþróttafélagsins.

Í vor verður sett upp stúka og skipt um gervigras á PCC vellinum á Húsavík. Verið er að leggja drög að því að skipta um gólf og stúku í Íþróttahöllinni og að hanna nýja Sundlaug í Lundi.

Sveitarstjórn hefur samþykkt að setja í gang gjaldskyldu á bílastæðum í miðbæ og á hafnarsvæði á Húsavík og hefst það verkefni 1. maí nk. Hafnasjóður hefur verið að leita eftir dráttarbáti og er búið að bjóða það verkefni út tvisvar án árangurs. Nú er stjórn Hafnasjóðs með vænlegan bát í sigti og skýrist síðar í apríl hvort við hreppum þann kost.

Fyrri umræðu um ársreikning Norðurþings 2024 er lokið en síðari umræða fer fram 8. maí nk. Rekstur sveitarfélagsins er heilt yfir góður og er rekstrarniðurstaða samstæðunnar jákvæð um 388 millj.kr. Reksturinn er samt krefjandi, bæði miklar framkvæmdir á þessu ári og verulegar hækkanir tengdar ný gerðum kjarasamaningum, þannig að það þarf að sýna bæði skynsemi og aga í rekstrinum áfram.

Í Safnahúsinu á Húsavík var nýlega opnuð málverkasýning Þorra Hringssonar svo það er upplagt að nýta páskana í að heimsækja Safnahúsið og skoða þá sýningu. Nú er opið fyrir umsóknir um listamann Norðurþings og skal skila inn umsóknum 18. maí nk. Krubbur hugmyndahraðhlaup var haldið á Stéttinni í lok apríl og tókst frábærlega. Þá má ekki gleyma að minnast á bresku Eurovisionfarana í hljómsveitinni Remember Monday sem komu til Húsavíkur á vegum BBC. Tilefnið var að taka upp þeirra eigin útgáfu af laginu Húsavík (My Hometown) sem verður sýnt í aðdraganda Eurovision í maí.

Sauðfjárbændur á landinu slettu úr klaufunum á Fosshótel Húsavík um liðna helgi og skemmtu sér ærlega eins og þeirra var von og vísa. Völsungsstelpur spila nú úrslitaleiki Íslandsmótsins í blaki við nágrannana í KA, meistaratitill í húfi og á brattann að sækja eftir tap í fyrsta leik en vinna þarf þrjá leiki til að landa titilinum. Leikfélag Húsavíkur hefur auglýst allra síðustu sýningar á Sex í sveit, það er bráðskemmtilegur farsi í góðum meðförum leikaranna okkar.

Hér hefur verið stiklað á mjög stóru í starfsemi Norðurþings fyrstu þrjá mánuði ársins og tæpt á nokkrum viðburðum.

Með þessum pistil sendi ég mína bestu kveðjur til starfsfólks og íbúa með bestu óskum um gleðilega páskahátíð.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.

Nýjast