Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar
Ég vil byrja á því að viðurkenna staðreynd sem ekki er hægt að neita:
Akureyrarbær er, þegar horft er á niðurstöðu nýs ársreiknings, í tiltölulega góðri fjárhagslegri stöðu.
Rúmlega tveggja milljarða króna rekstrarafgangur er kærkomin tala, og sú staðreynd að við fórum fram úr áætluðum tekju markmiðum okkar er vitnisburður um mikla vinnu og þolinmæði margra innan stjórnsýslu okkar.
Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að fagna góðum árangri þegar hann næst. Hins vegar er það skylda okkar líka, sem kjörinna fulltrúa, að horfa lengra en fyrirsagnirnar ná og skoða smáatriðin.
Þótt við fögnum þessum góða afgangi, verðum við að spyrja okkur:
Hvernig náðum við árangri núna, og á kostnað hvers? Hvernig ætlum við að ná árangri áfram, og getum við gert það á sjálfbæran hátt?
Við verðum með öðrum orðum að finna jarðtengingu, ekki síst þegar árangurinn er betri en við þorðum að vona. Ég legg til þessa þrjá þræði, sem þurfa að vera til staðar, ef við ætlum að tengja okkur aftur við jörð. Eflaust eru þeir fleiri.
Fyrsti þráður - Álögut, tekjur, þjónusta.
Fyrsti þráðurinn er sjálf jafnvægislistin sem verður að vera til staðar, til að viðhalda hinum óskrifaða sáttmála milli íbúa, sveitarfélags og fyrirtækja. Þar er ég að tala um jafnvægið á milli væntinga um þjónustu, tekjur og sanngjarnar álögur. Við, sem erum kjörin í bæjarstjórn til fjögurra ára, erum svo sem bara í hlutverki sáttasemjarans sem þarf að sætta hin ólíku sjónarmið. Til að ná hinu eftirsótta jafnvægi. Viðhalda sáttmálanum.
Og út frá þessum sáttmála vil ég segja:
Það missir á endanum marks að setja fram niðurskurðarkröfu og skila síðan niðurstöðu sem er framar öllum vonum.
Það missir líka marks, á endanum, að gefa það út að ekki sé hægt að lækka hækkandi álögur á íbúa, ef annað kemur í ljós.
Styrk fjármálastjórn snýst ekki bara um varfærnar áætlanir og kappsfulla tekjuöflun. Hún snýst líka um jafnvægi.
Annar þráður - Skuldirnar
Næst eru það skuldirnar. Um þær vil ég segja:
Jafnvel þótt tekjur hafi farið fram úr væntingum, þá þurfum við samt að gæta vel að langtímaskuldum. Því þótt við fögnum afgangi í dag, þá berum við engu að síður umtalsverða skuldabyrði.
Við þurfum sem fyrr að hafa skýra áætlun um ábyrga skuldaminnkun, og ekki bara treysta á hagstæð efnahagsleg skilyrði til að viðhalda núverandi stöðu okkar.
Þriðji þráður - Fjárfestingar
Svo mörg voru þau orð, um skuldirnar. Þriðji þráðurinn, sem ég vil impra á, liggur í fjárfestingunum.
Því þótt við höfum afgang, þá verðum við að fjárfesta með skynsömum hætti í framtíð Akureyrarbæjar.
Við eigum að forgangsraða verkefnum sem munu sannarlega gagnast öllum íbúum og einbeita okkur að fjárfestingum sem styrkja samfélagið, styðja við staðbundin fyrirtæki og bæta lífsgæði allra.
Jarðtengd, framsýn og viðsýn
Og þá er ég búinn að létta af mér!
Að þessu öllu sögðu þá er niðurstaðan vitanlega mjög jákvæð fyrir rekstur bæjarfélagsins. Það er líka nauðsynlegt að minna sig á að góð rekstrarniðurstaða er alls ekki sjálfsögð.
Við þurfum ekki að horfa langt um farinn veg til að finna þyngri ár – og sannarlega eru blikur á lofti, víða.
En það er líka full ástæða til að leyfa sér að vera bjartsýnn áfram um hag Akureyrarbæjar.
Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri