Akureyri vermir botnsætið
Haukar lögðu Akureyri að velli með þriggja marka mun, 29-26, er liðin mættust í KA-heimilinu í gærkvöld í Olís-deild karla í handknattleik. Akureyringar náðu því ekki að fylgja eftir sigrinum gegn Selfossi á útivelli fyrir viku en það var fyrsti sigur liðsins á tímabilinu. Leikurinn í gær var jafn framan af en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn sigu Haukar hægt og rólega framúr. Haukar náðu mest sex marka forystu.
Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur í liði Akureyringa með sex mörk, Andri Snær Stefánsson og Mindaugas Dumcius skoruðu fimm mörk, Kristján Orri Jóhannsson skoraði fjögur mörk, Karolis Stropus þrjú mörk og Friðrik Svavarsson tvö mörk. Hjá Haukum var Janus Daði Smárason markahæstur með níu mörk og Guðmundur Árni Ólafsson kom honum næstur með sjö mörk.
Eftir sex umferðir er Akureyri á botni deildarinnar með tvö stig. Liðið hefur unnið einn leik en tapað fimm. Haukar eru sæti fyrir ofan með fjögur stig. Afturelding er á toppnum með átta stig og ÍBV og Grótta hafa sjö stig í öðru og þriðja sæti. Næsti leikur Akureyrar er útileikur gegn Fram, laugardaginn 15. október.