Nýr samningur Akureyrarbæjar og Skákfélags Akureyrar undirritaður
Í gær var undirritaður nýr samningur Akureyrarbæjar við Skákfélag Akureyrar sem hefur það að meginmarkmiði styðja við starf barna og ungmenna og gefa þeim kost á heilbrigðu og metnaðarfullu félags- og æskulýðsstarfi.
Fyrir framlag Akureyrarbæjar til skákfélagsins skal félagið bjóða upp á barna- og unglingastarf á Akureyri. Félagið sinnir jafnframt í samstarfi við grunnskóla Akureyrarbæjar skákennslu samkvæmt nánara samkomulagi við hvern og einn skóla. Bjóða skal upp á faglegt starf með forvarnir og jafnrétti að leiðarljósi og sem tekur mið af grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga. Upplýsingar um grunnþættina má nálgast á heimasíðu barnvænna sveitarfélaga.
Samningurinn gildir fyrir árin 2024-2026 og leggur Akureyrarbær Skákfélaginu til 500.000 kr. fyrir hvert þessara þriggja ára. Félagið nýtur einnig styrks frá Akureyrarbæ í formi húsaleigu og félagssaðstöðu í kennslustofu í vesturhluta Íþróttahallarinnar.
Skákfélag Akureyrar skal uppfylla þau ákvæði í Mannréttindastefnu Akureyrarbæjar, Forvarnastefnu Akureyrarbæjar og Aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum þar sem kveðið er á um skyldur félaga og félagasamtaka sem þiggja styrki frá Akureyrarbæ.
Í samræmi við mannréttindastefnu Akureyrarbæjar skal skipað þannig í nefndir, ráð og stjórnir þeirra félaga sem hafa fasta styrktarsamninga við Akureyrarbæ að þess sé gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki undir 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Ef kynjahlutfall er ekki samkvæmt stefnunni í dag, skal félagið gæta þess næst þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir félagsins að það uppfylli ákvæði mannréttindastefnu Akureyrarbæjar.
Sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs og fjármálastjóra bæjarins skal heimilt að sitja fundi stjórnar Skákfélags Akureyrar með málfrelsi og tillögurétti þegar fjallað er um fjárhagsáætlanir og ársreikninga, og skal þeim þá sent fundarboð með hæfilegum fyrirvara.
Einu sinni á ári, fyrir lok ágúst, gerir framkvæmdastjóri/ forráðamaður Skákfélags Akureyrar fjármálastjóra Akureyrarbæjar og sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs grein fyrir rekstrarstöðu. Boðun fundanna er á ábyrgð stjórnar Skákfélags Akureyrar. Skulu upplýsingarnar kynntar fræðslu- og lýðheilsuráðs í kjölfarið. Að loknu hverju starfsári skal haldinn upplýsinga- og samráðsfundur stjórnar Skákfélags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráð óski annar hvor aðilinn þess, þar sem staða rekstrarins og fjárhagsáætlun Skákfélags Akureyrar fyrir næsta starfsár er kynnt.