Hóteleigandinn og athafnamaðurinn Örlygur Hnefill Örlygsson er sannkölluð hugmyndamaskína. Hann var mikið í sviðsljósinu í kringum kvikmyndaævintýri Húsavíkinga, þegar Netflix stórmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var tekin upp í bænum. Örlygur sá strax tækifæri í athyglinni sem heimabærinn fékk frá kvikmyndaverkefninu og fylgdi því eftir til hins ítrasta. Hann setti Húsavík á heimskortið þegar titillag myndarinnar; Húsavík, My Hometown var tilnefnt til Óskarsverðlauna. Hann að sjálfsögðu hrinti í framkvæmd herferð til að kynna lagið; sem vakti heimsathygli og varð að lokum til þess að söngatriðið fyrir Óskarsverðlaunahátíðina var tekið upp á Húsavík.
Þá hefur Örlygur staðið fyrir opnun á Eurovision safni og JA JA DingDong bar. En þar er fyrirhugað tónleikahald þegar aðstæður leyfa vegna Covid.
Nýtt söngævintýri
Nú hefur Örlygur séð til þess að úrslitakvöld Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldið á Húsavík í ár. Örlygur var kampakátur þegar blaðamaður leit við hjá honum í vikunni. „Keppnin var fyrst haldin árið 1990 og í þessari keppni hafa stigið sín fyrstu skref margt af okkar þekktasta tónlistarfólki í dag. Enda er þetta vettvangur sem er mjög vel til þess fallin,“ segir Örlygur og bætir við að hann sé nú ekki alls ókunnugur því að halda úrslitakvöld keppninnar, enda stóð hann fyrir því á sínum tíma að keppnin var haldin á Akureyri í fyrsta sinn.