13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Fyrsta dauðsfallið af völdum kóvid á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Dauðsfall vegna Covid-19 varð á Sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina. Er það fyrsta dauðsfallið vegna faraldursins á SAk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn SAk.
Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru í dag skráðir tæplega 2000 í einangrun vegna Covid-19. Alls greindust um 2500 ný smit innanlands síðastliðinn sólarhring og af þeim voru um 340 á nærsvæðinu.
Níu eru inniliggjandi á sjúkrahúsinu með Covid-19, enginn á gjörgæsludeild. Um 60 starfsmenn eru fjarverandi vegna Covid-19 og er það ein aðaláskorunin þessa dagana. Skoðað er dag frá degi hvernig tekist er á við mönnunina.
Sjúkrahúsið er á hættustigi
Ítrekað er að fólk komi ekki á bráðamóttöku nema í bráðatilvikum. Heilsugæslan er hugsuð sem fyrsta viðbragð nema þegar um bráðatilvik er að ræða.
Minnt er á að þó starfsfólk verði útsett fyrir smiti við störf sín kallar það ekki á aðgerðir, sýnatöku eða annað, svo lengi sem sóttvarnir voru viðhafðar. Nægilegt er að vera í sóttkví C.
Veður útlit er nokkuð slæmt fyrir nóttina og morgundaginn og appelsínugul viðvörun í gangi. Spáð er stífri austanátt í nótt, sem reyndar hefur sjaldnast mikil áhrif í Eyjafirði. Í fyrramálið og undir hádegi á morgun snýst hann svo í SV-átt sem getur valdið vandræðum á svæðinu. Reiknað er með að veðrið gangi hratt yfir. Gott er að fylgjast vel með og vera meðvituð um stöðuna.
Samhæfingarstöð almannavarna verður virkjuð og aðgerðastjórnir um allt land eru í viðbragðsstöðu.