20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vinstri græn á réttri leið
Vinstri græn náðu frábærum árangri í nýliðnum kosningum og sýnir það okkur ótvírætt hve sterkur málstaður og samstaða skilar góðum árangri. Hinu höfum við líka kynnst að sundrung og klofningur meðal vinstri manna er alltaf vatn á myllu hægri aflanna í landinu.
Mikill sigur VG í Norðvesturkjördæmi, þar sem hreyfingin bætir við sig 9,6% fylgi og fer í 18,1%, er afrakstur samstöðu, góðrar og málefnalegrar kosningabaráttu og einnig vinnu baráttuglaðs þingflokks á síðasta kjörtímabili með sinn öflugan formann, Katrínu Jakobsdóttur, í stafni. Það var sárgrætilegt að annar maður á framboðslista VG, Bjarni Jónsson, náði ekki kosningu þrátt fyrir stóraukið fylgi flokksins. En svona er kosningakerfið og vissulega munaði litlu að Bjarni næði inn. Ég þakka Bjarna Jónssyni og öllum meðframbjóðendum mínum frábært og skemmtilegt samstarf í snarpri og góðri kosningabaráttu og minni á að varaþingmenn hafa sannarlega áhrif.
Ábyrgð fylgir vegsemd hverri og nú er það okkar í Vinstri grænum að rísa undir þeirri ábyrgð og skyldu að vera sá flokkur sem vinstra félagshyggjufólk, umhverfissinnar og femínistar finna sig eiga samleið með.
Vonbrigði þrátt fyrir sigur
Þótt Vinstri græn geti verið ánægð með ágætan árangur í kosningunum þá er það sannarlega mikið áhyggjuefni hve sterk hægri öflin í landinu eru orðin. Það veldur einnig vonbrigðum og undrun og að sú spilling og sérhagsmunagæsla sem leiddi til þess að kosningum var flýtt skuli ekki endurspeglast betur í úrslitum kosninganna. Óskaniðurstaðan var vissulega sú að kosningaúrslitin hefðu gefið kost á öflugri félagshyggju- og velferðarstjórn sem endurreisti velferðarkerfið og innviðina og kæmi á jöfnuði og félagslegu réttlæti eins og kallað var á af stórum hluta þjóðarinnar.
Þegar þetta er skrifað er ekki búið að mynda ríkisstjórn. Þreifingar um stjórnarmyndun eru hafnar og vart verður áhuga á því að VG vinni með hægri öflunum í næstu ríkisstjórn. Í okkar hópi hræðast margir að Vinstri græn munu koma sködduð út úr slíku samstarfi og betra sé að vera öflug í aðhaldi í stjórnarandstöðu. Við þurfum að vanda okkur og láta málefnin og hagsmuni lands og þjóðar ráða för og meta hvar kröftum okkar er best varið gagnvart kjósendum okkar og málstað.
Þakkir til kjósenda
Ég vil færa kjósendum Vinstri grænna í NV kjördæmi bestu þakkir fyrir traustið og stuðninginn og við munum leggja okkur fram um að rísa undir því trausti. Félögum, meðframbjóðendum, kosningastjórum og sjálfboðaliðum þakka ég kærlega fyrir gott og óeigingjarnt starf. Framundan er vinna við að efla og rækta félagsstarfið í kjördæminu nú þegar við göngum aftur sameinuð til leiks og treysti ég því að það eigi eftir að skila sér á sveitarstjórnarstiginu og aftur í næstu þingkosningum.
Baráttukveðja!
Höfundur er alþingismaður VG í NV kjördæmi.