Vindar nýsköpunar blása á Húsavík

Krubbur hugmyndahraðhlaup byrjar á morgun, föstudag klukkan 13.
Krubbur hugmyndahraðhlaup byrjar á morgun, föstudag klukkan 13.

Krubbur er tveggja daga hugmyndasmiðja haldin á Stéttinni á Húsavík 28. – 29. mars. Smiðjan er opin öllum og engin fyrri kunnátta er nauðsynleg. Áhersla ársins er á nýsköpun í ferðaþjónustu en jafnframt er opinn flokkur fyrir þau sem það kjósa.

Á Krubbi er nýsköpunarhugsun kennd og þjálfuð, ýtt undir hugmyndaauðgi og frumkvæði. Er þetta gert með því að nota raunverulegar áskoranir sem þátttakendur fá að spreyta sig á. Ýmsir reyndir mentorar og þjálfarar aðstoða þátttakendur í leit sinni að vörum og svörum. Jafnframt fá þátttakendur aðstoð við að mynda og starfa í teymi og við að kynna sínar hugmyndir. Vegleg verðlaun verða í boði fyrir bestu hugmyndirnar.

Orðið hugmyndahraðhlaup er hugarsmíði Stefáns verkefnastjóra Hraðsins. Orðið fæddist í aðdraganda Krubbsins sem haldinn var í fyrsta sinn árið 2024. Merkingin er sú sama og hakkaþon. Á Krubbi 2025 ætlar Skynró, eitt af vinningsteymum ársins 2024, að segja frá sinni vegferð, frá því að vera lítið hugmyndafræ og nú fyrirtæki með vörur í þróun.

Hugmyndir til lausna

„Við köllum þetta hugmyndahraðhlaup til að íslenska orðið hakkaþon sem við höfum notað áður. Þetta er miklu betra orð,“ segir Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri Hraðsins Nýsköpunarmiðstöðvar Húsavíkur og Fab Lab Húsavíkur.

Stefán segir að í smiðjunni verði unnið með hugmyndir að lausnum sem tengjast okkur á Húsavík og munu fyrirtæki og stofnanir á svæðinu kynna áskoranir.

„Fyrirlesarar munu einnig fræða okkur um aðferðir sem nýtast við þróun og framsetningu nýsköpunarhugmynda,“ segir Stefán og bætir við að glæsileg verðlaun séu í boðið fyrir bestu hugmyndirnar.

Ferðaþjónusta á jaðartímum

Þemað á Krubbnum í ár er ferðaþjónusta á jaðar og vetrartíma en svo eru aðrar áskoranir líka og markmiðið er að koma með hugmyndir sem bæta ferðaþjónustuna á Húsavík á einhvern hátt.

„Háskólinn á Akureyrir stefnir á að vera með fulltrúa, hana Svövu Björk Ólafsdóttur sem er algjör Nýsköpunarfrömuður og hakkaþon meistari Íslands, hún er að koma ásamt Áslaugu Ásgeirsdóttur rektor í HA,“ útskýrir Stefán og bætir við að rektor verði veð tölu um nýsköpun sem ætlað er að veita innblástur.

Þátttakendur leiddir í gegnum ferlið

,,Síðan verður Svava með frumkvöðlafræði 101 og svo erum við bara að leiða fólk í gegn um það hvernig þátttakendur koma hugmynd frá sér á blað og jafnvel í framkvæmd. Einnig fá þátttakendur þjálfun í að kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd. Það gæti hjálpað þeim að koma hugmynd sinni í framkvæmd í raunheimum. Svo eru náttúrlega glæsilegir vinningar fyrir bestu hugmyndirnar,“ segir Stefán.

Áskoranir frá heimafólki

PCC, Norðurþing og Húsavíkurstofa verða með áskoranir sem þátttakendur þurfa að leysa. PCC er með áskorun um hvernig við getum nýtt glatvarma frá PCC á sjálfbæran og skapandi hátt?

Norðurþing skorar á þátttakendur að skapa einstakt kennifyrirbæri á Húsavík sem laðar að gesti og er myndrænt og Húsavíkurstofa leitar eftir hugmyndum um hvernig megi auka ferðaþjónustu á svæðinu á jaðar og vetrartímum. Svo er einnig boðið upp á opna áskorun.

Mikilvægur vettvangur

Stefán segir að Krubburinn hafi þegar sannað gildi sitt enda séu fyrri þátttakendur komin langt í sinni vinnu. „Hugarró sem vann til verlauna á síðasta ári, þau hafa verið að halda áfram með sína vinnu og eru komin mjög langt og eru að taka þátt í fleiri hröðlum,“ segir Stefán og bætir við að Hraðið sé mikilvægur vettvangur fyrir frumkvöða framtíðarinnar.

„Það hefur verið eitt af markmiðum okkar að vera frumkvöðla og nýsköpunaraðstaða fyrir Húsvíkinga og þetta er bara partur af þeirri vinnu,“ segir Stefán og bætir við að hver sem er geti orðið frumkvöðull, það þurfi bara hgumyndafræ og þor til að þróa hana áfram.

„Það er hugmyndin, að hver sem er getur komið hugmynd á framfæri og fengið til þess nauðsynlega aðstoð,“ segir Stefán að lokum.

Stefán, Hildur Halldórsdóttir frá SSNE og Svava frá Háskólanum á Akureyri eru þjálfarar hugmyndahraðhlaupsins sem leiða þátttakendur í gegnum ferlið, hvernig hugmynd er komið á framfæri. Hugmyndahraðhlaupið stendur yfir frá 28. mars til 29. mars. Húsið opnar klukkan 13 á morgun, föstudag.

Nýjast