Undirbúningur að hefjast vegna Landsmóts skáta að Hömrum sumarið 2026

Landsmót skáta var síðasta haldið á Hömrum fyrir 11 árum og mikil tilhlökkun fyrir mótinu sem haldið…
Landsmót skáta var síðasta haldið á Hömrum fyrir 11 árum og mikil tilhlökkun fyrir mótinu sem haldið verður þar sumarið 2026. Myndir frá Skátafélaginu Klakki

„Það er mikil tilhlökkun í gangi meðal skáta á Akureyri, enda hefur Landsmót skáta ekki verið haldið hér í 11 ár,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir mótsstjóri. Landsmót skáta verður haldið að Hömrum dagana 20 til 26 júlí árið 2026 og verður heilmikið ævintýri. Fyrsti kynningarfundur vegna mótsins verður haldinn í grænu hlöðunni að Hömrum næstkomandi þriðjudag, 1 apríl kl. 17.30.

Mótið stendur yfir í eina viku og segir Ingibjörg á að á þeim tíma verði reist og fellt heilt þorp þar sem verður að finna svefnaðstöðu, eldhús, skjól, vinnusvæði, hvíldar- og skemmtisvæði. Þá þurfi að setja upp sorpflokkun, frágang, urðun og hreinsun, sett er upp sjúkraþjónusta, verslanir og kaffihús. „Skátarnir geta sinnt nánast öllu sem upp á kemur á einu Landsmóti, en eru líka svo heppnir að eiga góða að, fólk með skyndihjálparkunnáttu sem dæmi. Við erum yfirleitt með mannaðar vaktir hjúkrunarfræðinga og lækna sem ýmist eru skátar eða eiga ramma taug inn í félagskapinn. Þá er björgunarsveitarfólk gjarnan innan okkar raða og leggja fram krafta sína,“ segir hún.

Í mörg horn að líta

Ingibjörg segir að Landsmót skáta sé viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. „Við erum að hefja undirbúning að næsta móti og hlökkum mikið til. Við erum að vona að á Akureyri séu gamlir skátar sem gjarnan vilja taka þátt í þessu ævintýri með okkur, fólk sem hefur kannski ekki haft sig mikið frammi í skátunum síðustu ár en er tilbúið að leggja okkur lið. Það er í mörg horn að líta, mikið sem þarf að gera fyrir mót og meðan á því stendur þannig að allar fúsar hendur eru meira en velkomnar á kynningarfundinn,“ segir hún. „Þessi mót skipuleggja sig víst ekki sjálf og ekki er ráð nema í tíma sé tekið,“ bætir hún við.

Undirbúningur vegna landsmóts er að hefjast og verður kynningarfundur haldinn í grænu hlöðunni á Hömrum á þriðjudag í næstu viku

 Skátar setja svip á bæinn

Gert er ráð fyrir að 3000 til 3500 skátar taki þátt í mótinu að Hömrum sumarið 2026. Misjafnt er hversu margir erlendir þátttakendur eru en sem dæmi voru þeir um 900 talsins á Landsmóti á Úlfljótsvatni síðasta sumar og komu frá 14 þjóðlöndum. „Erlendu skátarnir setja mikinn svip á mótin. Það er gaman að fylgjast með því hvernig þjóðir vinna saman að ýmsum hlutum í gegnum tungumálamúrinn sem virðist skipta ótrúlega litlu máli þegar kemur að samskiptum milli skátanna,“ segir hún.

Það muni ekki fara fram hjá neinum bæjarbúa að Landsmót standi yfir en skátarnir muni setja sinn góða svip á bæjarbraginn þá daga sem mótið stendur yfir. „Við erum að vona að hægt verði að bjóða upp á dagskrá í Grímsey og Hrísey líka, það væri alveg frábært að geta tengt eyjarnar sem eru hluti Akureyrar inn í mótið og við munum skoða hvað hægt verður að gera í þeim efnum.“

Nýjast