Carbfix boðar samtal við íbúa Húsavíkur

Sameiginleg yfirlýsing Carbfix og Sveitarfélagsins Norðurþings um uppbyggingu Codastövar á Bakka við Húsavík var samþykkt á fundi sveitarstjórnar undir lok síðasta mánaðar. ,,Við undirritun viljayfirlýsingarinnar fer í gang ferli til að klára yfirgripsmeiri ítarlegri viljayfirlýsingu um framgang verkefnisins,“ sagði Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings við það tilefni.
Carbfix hefur nú boðað til kynningarfundar á Fosshótel Húsavík þar sem áform um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ á Húsavík verðu kynnt fyrir íbúum. Í tilkynningu félagsins segir að tilgangur fundarins sé að hefja samtal við íbúa svæðisins um uppbyggingu slíkra stöðva.
„Á fundinum verður sagt frá hvers vegna er verið að byggja slíkar stöðvar, hvernig ferlið gengur fyrir sig, hvernig slíkar stöðvar eru byggðar upp, hvernig þær geta litið út og hvaða samfélagslegu og efnahagslegu áhrif þær hafa,“ segir í tilkynningunni.
Fundurinn fer fram fimmtudaginn 3. apríl klukkan 17:15 í Skjálfanda, fundarsal á jarðhæð Fosshótel Húsavík. Einnig er hægt að fylgjast með fundinum í beinu streymi.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix munu flytja kynningar á fundinum áður en opnað verður fyrir spurningar úr sal og af netinu.