Ófremdarástand í húsnæðismálum eldri borgara á Akureyri

Ekki er óalgengt að 100 til 200 manns sæki viðburði á vegum Félags eldri borgara og er þá oft þröngt…
Ekki er óalgengt að 100 til 200 manns sæki viðburði á vegum Félags eldri borgara og er þá oft þröngt setinn bekkurinn. Myndir EBAK

„Þetta er algjört ófremdarástand, það verður ekki orðað öðruvísi,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri, EBAK og vísar til þess að skortur er á viðunandi félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í bænum. Félagið skoraði á aðalfundi sínum nýverið, á Akureyrarbæ að bæta félagsaðstöðu EBAK þannig að hún samrýmist kröfum um vaxandi starfsemi félagsins.

Eldri borgarar hafa stundað sitt félagsstarf á tveimur stöðum í bænum, í Birtu sem er við Bugðusíðu og Sölku við Víðilund. Bæði húsin er of lítil. Félagsmenn í EBAK eru 2770 talsins og bætast nýir félagar við nánast daglega. Sem dæmi höfðu 6 nýir skráð sig í félagið á mánudag. „Það fjölgar ört í félaginu,“ segir Karl en á Akureyri búa um 5000 manns sem náð hafa 60 ára aldri og eru gjaldgengir í félagið.

Um 70 kórfélagar eru í kór aldraðra, Í fínu formi og þar er sú staða uppi á teningnum að húsnæði vantar til æfinga.

Félagsstarfið farið að líða fyrir húsnæðisskortinn

Karl segir ekki óalgengt að 100 til 200 manns mæti á viðburði á vegum félagsins og það húsnæði sem í boði er, hvort heldur sem er Birta eða Salka væri langt í frá að anna þörfinni. Félagsstarfið á Akureyri er því farið að líða fyrir húsnæðisskortinn.

Stjórn EBAK hefur leitað lausna á húsnæðisskortinum og m.a. sett fram hugmyndir um viðbyggingu við sal Birtu í Bugðusíðu 1, þar sem m.a. líkamsræktarstöðin Bjarg er til húsa. Sú lausn hefur mætt andstöðu stærsta meðeigenda Akureyrarbæjar að húsinu, sem er Sjálfsbjörg. „Fundurinn skorar á bæjarstjórn Akureyrar að leita allra leiða í samvinnu við EBAK til að bæta úr þessu ófremdarástandi í húsnæðismálum félagsins,“ segir í ályktun.

Komust ekki allir inn sem vildu

Karl segir að félagið vilji sýna sanngirni og fara ekki fram með offorsi, en ljóst sé að bregðast þurfi við. „Það er mikill áhugi meðal eldri borgara á Akureyri að taka þátt í félagsstarfi og því mjög bagalegt að þurfa jafnvel að vísa fólki frá viðburðum,“ segir hann. Sú staða kom upp m.a. á kráarkvöldi sem efnt var til fyrir skemmstu. „Það varð bara allt fullt á augabragði, húsið fylltist og ekki hægt að hleypa öllum inn. Það þykir okkur mjög leiðinlegt, því auðvitað vill fólkið taka þátt í félagsstarfinu, hitta aðra og gera sér glaðan dag,“ segir Karl.

Kráarkvöldið var haldið í Sölku í Víðilundi. „Að hafa ekki pláss fyrir nema um það bil 80 manns við borð er alltof lítið því fólk sækir í þessar skemmtanir, vill hafa gott pláss og geta dansað og hreyft sig,“ segir einn félagsmanna í facebookspjalli um málið og bætir við að kráarkvöldin séu einu tækifærin sem þar sem fólk getur komið saman og dansað. „Vonandi eignast félagið boðlegri salarkynni fyrr en seinna.“

Sýna okkur fingurinn

Í umræðum er nefnt að stjórn Sjálfsbjargar vilji ekki sjá að farið verði í byggingaframkvæmdir og stækkun við Birtu í Bugðusíðu. „Sýna okkur bara fingurinn“ segir í færslu og að viðræðum um stækkun sé neitað og beðist undan því að verið sé að ónáða stjórnarmenn með fyrirspurnum.

Fram kemur í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að þau skuli tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við hæfi, en benda félagsmenn á að allar götur frá árinu 2001, í nær aldarfjórðung hafi ekki verið í boði viðunandi húsnæði fyrir félagsstarf aldraðra í bænum.

50 hafa áhuga á gervigreindarnámseiði

Karl bætir við að margir sjái sér hag í því að gangi í félagið, svo sem sjá megi af félagatölunni, enda bjóði félagið upp á áhugaverða viðburði. Nýjasta námskeiðið sem í boði verður hjá félaginu er um gervigreind og húspláss fyrir um 20 manns inn á það. „Það var mikill áhugi fyrir þessu námskeiði, við fengum 50 umsóknir. Nú þurfum við að fara að púsla þessu saman og troða inn í salinn, því ekki komast allir fyrir sem vilja vera með. Við verðum greinilega að halda fleiri en eitt námskeið,“ segir hann. Og bætir við að vissulega bjóði Akureyrarbæjar félaginu upp á aðstöðu innan grunnskóla bæjarins og viðburðir hafi verið haldnir bæði í Nausta- og Brekkuskóla. „En það er auðvitað bundið við að hafa viðburðinn utan skólatíma og gengur því ekki alltaf upp þegar kemur að okkar félagsstarfi.“

Nýjast