Verkefnin framundan

Á undanförnum árum hefur náðst ævintýralegur árangur í að rífa íslenskt efnahagslíf upp úr hjólförum stöðnunar. Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um afnám hafta, skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum, kaupmáttur launa hefur aldrei mælst meiri, útgjöld til heilbrigðismála hafa verið aukin, almenn vörugjöld voru afnumin, skattkerfið hefur verið einfaldað og viðskiptaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur verið eflt. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut.

Húsnæðismálin brenna mikið á fólki og þá sérstaklega ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðnum. Erfitt er að festa kaup á fyrstu fasteign og leiguverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum. Lausnin við þessu er að auka framboð nýrra íbúða. Gera þarf breytingar á byggingarreglugerð og leggja áherslu á að einfalda hana og draga úr öðrum hindrunum í regluverki, t.d. með lækkun gjaldheimtu sveitarfélaga sem auka kostnað byggingaraðila. Það gerir þeim kleift að byggja ódýrari og hagkvæmari íbúðir sem sniðnar eru að þörfum ungs fólks sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði. Sveitar félög þurfa einnig að leggja hönd á plóg með því að auka framboð lóða til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Við þurfum að skapa tækifæri fyrir ungt fólk með spennandi störfum og tækifærum hérna á Íslandi. Íslenskt atvinnulíf verður að vera samkeppnishæft ef vel menntað ungt fólk á að sjá hag sinn í því að leita tækifæra hérna heima. Besta leiðin til þess er að minnka skattheimtu og einfalda regluverkið. Það hjálpar fyrirtækjum og athafnasömum einstaklingum að sækja fram, stækka við sig og fjárfesta. Öflugt atvinnulíf skapar störf við hæfi fyrir vel menntað fólk.

Leggja þarf áherslu á að draga úr umsvifum hins opinbera á flestum sviðum. Ríkisvaldið á að sinna fáum, afmörkuðum verkefnum og sinna þeim vel. Í dag er staðan hins vegar sú að ríkisvaldið teygir anga sína alltof víða, með tilheyrandi kostnaði og óhagkvæmni. Með því að fækka verkefnum ríkisins væri hægt að lækka skattheimtu hins opinbera, sem skilar sér í hærri ráðstöfunartekjum einstaklinga og auðveldar ríkissjóði að greiða niður skuldir sínar hraðar en ella.

Standa þarf vörð um frelsi einstaklingsins til orða, athafna og viðskipta. Einstaklingar eiga sjálfir að fá að ráða því hvernig þeir haga lífi sínu í skjóli frá ríkisvaldinu. Það er til dæmis ekki hlutverk ríkisins að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar velja börnum sínum eða hvar fullorðið fólk verslar áfengar en löglegar vörur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð miklum árangri á liðnu kjörtímabili en betur má ef duga skal. Ég vil leggja mitt að mörkum og nýta tækifærin sem við stöndum frammi fyrir til frekari uppbyggingar og frjálsara samfélags. Sjálfstæðisflokkurinn þarf einnig að bjóða fram fjölbreyttan hóp fólks til setu á Alþingi, vera óhræddur við að veita ungu fólki brautargengi og sýna þannig að flokkurinn eigi samleið með ungu fólki.

Höfundur er laganemi og varaformaður SUS og býður sig fram í fjórða sæti á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Nýjast