Þokkaleg bjartsýni ríkjandi innan ferðaþjónustunnar á Norðurlandi
„Við finnum fyrir þokkalegri bjartsýni á gott sumar hjá ferðaþjónustuaðilum á Norðurlandi. Það er ekki farið að bera neitt á afbókunum t.d. frá Bandaríkjamönnum,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Vangaveltur hafa verið upp að dregið gæti úr ferðahug þarlendra í kjölfar þess að haldið er með öðrum hætti um stjórnartauma þar en við eigum að venjast eftir að Trumpstjórnin tók við völdum.
„Við finnum enga stefnubreytingu ennþá í það minnsta, hvað sem síðar verður. Eins og staðan er nú er bandaríski dollarinn hagstæður fyrir þá sem vilja ferðast út og virðast margir nýta sér það,“ bætir hún við. Þá nefnir hún að vinsælt sé um þessar mundir meðal Bandaríkjamanna og fleiri að heimsækja staðir sem ekki flokkast sem fjölfarnir, staði þar sem margir hafa ekki áður komið. „Þar eigum við á Norðurlandi mikið inni og verðum vör við að fólk langi af koma einmitt til að upplifa fáfarnari slóðir.“
Arnheiður segir þó greinilegt að uppi séu óvissutímar og alls ekki hægt að sjá fyrir um strax hver þróunin verður. „Það er alltaf slæmt fyrir allan rekstur að búa við óvissu. Næsta sumar lítur enn sem komið er þokkaleg vel út og við hér fyrir norðan finnum ekki fyrir því að ferðalangar séu að draga saman seglin,“ segir hún.
Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands
Innviðagjald setur strik í reikninginn
Mun færri skemmtiferðaskip munu hafa viðkomu á Akureyri en komu við í fyrrasumar, yfir 40 skipum færra. Arnheiður segir að af því leiði að mun færri farþegar verði á ferðinni á Akureyri og nágrannabyggðum vegna þess. Innviðagjald sem sett var á í lok síðasta árs, 2500 krónur á sólarhringinn fyrir hvern og einn farþega valdi færri skipakomum enda muni skipafélögin um þessa upphæð. „Við sjáum fyrir okkur til lengri tíma að þetta muni hafa neikvæð áhrif á rekstur minni fyrirtækja sem byggt hafa upp sína starfsemi af þjónustu við gesti skemmtiferðaskipanna. Það verða þau sem fyrst finna fyrir samdrætti og þessi fækkun mun komast harðast niður á þeim,“ segir Arnheiður. Neikvæð áhrif innviðagjalds gætu fyrir sum fyrirtækjanna leitt til mikils tekjusamdráttar.
Líflegur vetur
Arnheiður er ánægð með senn liðinn vetur og segir beint flug á Akureyrarflugvöll frá því í nóvember vera mikla lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Það geri að verkum að mikið hafi verið að gera hjá ferðaþjónustunni á svæðinu og dregið hafi mjög úr árstíðarsveiflum sem áður settu mark sitt á atvinnugreinina. Flug easyJet frá bæði London og Manchester hafi gengið vel og síðarnefndi áfangastaðurinn sé hrein við bót við Lundúnaflugið. „Það hefur verið ágætis nýting í báðum þessum flugum og eins hafa heimamenn hér á svæðinu nýtt sér þennan möguleika í ríkum mæli,“ segir hún. Einnig hefur flug frá tveimur löndum, Hollandi og Sviss sem hófst í byrjun árs einnig komið vel út. „Veturinn hefur verið líflegur og ferðafólk sett svip á bæjarlífið,“ segir Arnheiður.