Skoða mögulegar leiðir fyrir áframhaldandi starfsemi á Laugalandi
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að hætta starfsemi meðferðarheimilisins á Laugalandi. Rekstraraðili heimilisins hafi sagt upp samningi sínum og nú sé verið að skoða hvernig sér hægt að halda úrræðinu áfram. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu en mikið hefur verið rætt og ritað um lokun Laugalands undanfarna daga.
„Þetta er þannig að í kringum áramótin tilkynnir rekstraraðilinn sem heldur þessari stofnun gangandi að hann vilji segja upp úrræðinu og hætta starfsemi. Það er þá sem við fáum þetta í fangið, Barnaverndarstofa og ráðuneytið,“ segir Ásmundur. „Við erum á fyrstu metrunum í því að fara yfir hvað verður gert. Það er ekki búið að taka ákvörðun um framhaldið,“ bætir hann við.
Ásmundur Einar segist muna funda með starfsfólki Laugalands að þeirra beiðni en starfsmenn hafa sent áskorun á Ásmund og Heiðu Björg Pálmadóttir, forstjóra Barnaverndarstofu um að finna leið til að halda starfseminni gangandi. Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, tekur í sama streng og Ásmundur og segir í samtali við Fréttablaðið það of snemmt að segja til um hvað verður um starfsemi Laugalands. Hún segir að það hafi alltaf verið ánægja með Laugalands. Barnaverndarstofa mun funda með sveitarfélögunum í næstu viku.
Pétur G. Broddason hefur verið forstöðumaður á meðferðarheimilinu að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit frá árinu 2007. Laugaland er einkarekið meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu fyrir stúlkur á aldrinum 13-18 ára með fjölþættan hegðunarvanda. Heimilið er í um 15 km. fjarlægð frá Akureyri. Meðferðarheimilið hefur verið starfrækt frá árinu 1997, fyrst í Varpholti í Hörgárbyggð síðan að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit, frá því í september 2000. Frá árinu 2000 hefur skapast sú hefð að vista einungis stúlkur á Laugalandi.
Pétur Broddason gaf ekki kost á viðtali við Vikublaðið þegar blaðið hafði samband við hann.