Bakþankar bæjarfulltrúa Andvaka yfir Naustagötu 13

Jón Hjaltason skrifar
Jón Hjaltason skrifar

Óskaplega getur verið erfitt að vera samkvæmur sjálfum sér. Tökum dæmi. Forðum var ég ekki sáttur við hugmyndir verktaka um Tónatröðina og hafði hátt um að auglýsa bæri lóðina aftur. Einfaldlega vegna þess að gjörbreyta átti skipulagi hennar.

Svo kemur upp svipuð staða á óbyggðu lóðinni við efra hringtorgið inn í Hagahverfi, Naustagötu 13. En þá verður sú kúvending að ég segi já og amen við því að lóðarhafi fái að byggja á gjörbreyttum forsendum frá því sem segir í aðalskipulagi.

Þetta er ekkert annað en spilling hefur mér verið brugðið um sem ég veit ekki alveg hvernig ber að túlka. Að borið hafi verið á mig fé? Eða ég fengið að gjöf dýrindis vín eða jakkaföt? Kannski það.

Hvað sem slíkum fréttaburði líður get ég fullvissað lesendur um að spillingar-orðrómurinn er stórlega ýktur. Ég viðurkenni ósamræmið í afstöðu til þessara tveggja mála en ekkert umfram það. Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá lagðist ég í djúpa pælingu og niðurstaðan varð sú að segja já við skipulagsbreytingunni sem var að ósk lóðarhafa.

Rökin eru eftirfarandi. Ef ég man rétt hefur umrædd lóð verið auglýst þrívegis síðan 2021 og enginn sýnt henni áhuga nema núverandi lóðarhafi. Hann hefur sömuleiðis sýnt fram á fjárhagslega burði til að byggja á lóðinni. Verði Naustagata 13 auglýst enn og aftur óttast ég enn frekari tafir á uppbyggingu þar. Þá hefur fyrirhugaður leikskóli á lóðinni austan við Naustagötu 13 sett svolítið strik í reikning lóðarhafa sem breikkaði þó um allan helming þegar skipulagi hinnar fyrirhuguðu leikskólalóðar var gjörbreytt og skólinn settur niður á næstu lóð austan við.

Það sem hafði þó fyrst og fremst áhrif á afstöðu mína var að lóðarhafinn lagði fram hugmyndir að framtíð lóðarinnar sem ég tel falla vel að þörfum íbúa beggja hverfa sem eiga land að Naustagötu 13. Á íbúafundum undanfarið hafa fundargestir ítrekað látið í ljósi ánægju með nálægð við þjónustu og verslanir. En það er einmitt slík uppbygging sem er fyrirhuguð við Naustagötu 13.

Að lokum skal ég viðurkenna svolitla hlutdrægni, lóðarhafinn er nefnilega akureyrskur sem hafði vissulega ekki neikvæð áhrif á mig. Það er mín spilling.

Jón Hjaltason

óháður

 

Nýjast