Færni á vinnumarkaði - fyrsti nemendahópurinn brautskráður

Við brautskráninguna Frá vinstri: Karen Alda Mikaelsdóttir, Brynja Wanchinee Stefánsdóttir, Soffía M…
Við brautskráninguna Frá vinstri: Karen Alda Mikaelsdóttir, Brynja Wanchinee Stefánsdóttir, Soffía Margrét Bragadóttir, Jenný Gunnarsdóttir verkefnastjóri, Ólöf Kristin Lin Örnólfsdóttir, Bertha Dögg Bouman Maríudóttir og Daníel Smári Bjarnason. Mynd SÍMEY

SÍMEY brautskráði í gær sex nemendur á námsbrautinni Færni á vinnumarkaði en upp á þessa námsbraut var í fyrsta skipti boðið núna á haustönn í öllum símenntunarmiðstöðvum landsins. Í það heila ljúka um sjötíu nemendur þessu námi um allt land núna í desember og eftir áramót

Námið  á námskrá sem var afrakstur verkefnis félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem hefur það að markmiði að auka náms- og starfstækifæri fyrir fólk með fötlun.

Við brautskráninguna í gær lýsti Jenný Gunnarsdóttir verkefnastjóri og aðalkennari á þessari námsbraut náminu svo:

Þetta er samvinnuverkefni og skipulagt í samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Fjölmenntar og símenntunarmiðstöðvanna í landinu. Verkefnið var sett af stað með það að markmiði að tryggja aukin tækifæri fólks með fötlun til atvinnuþátttöku. Til þess að ná því markmiði var talið mikilvægt að bjóða upp á starfstengt nám þar sem einstaklingar gætu fengið viðeigandi stuðning á eigin forsendum enda sé nám og aðgengi að því undirstaða þess að auka tækifæri til atvinnuþátttöku og bættra lífsgæða. Til að byrja með vann Fræðslumiðstöð atvinnulífsins þarfagreiningar og út frá þeim urðu til sex svokallaðir starfaprófílar. Verkefnið miðar að því að fólk fái fræðslu og þjálfun í starfi sem fellur undir þessa starfaprófíla. Störfin sem um ræðir eru í leikskóla, við umönnun, störf á lager, við endurvinnslu, þrif og þjónustu og í verslun. Verkefnið fór þannig fram að nemendur sóttu 70 klukkustunda fræðslu til okkar hér í SÍMEY yfir haustönnina og luku 110 tíma starfsþjálfun á vinnustað. Að námsmati loknu fá nemendur diplómu frá okkur í SÍMEY auk fagbréfs atvinnulífsins. 
Þetta er tilraunaverkefni og alveg nýtt úrræði og því vorum við öll að renna blint í sjóinn. Það er alltaf krefjandi að hefja nýtt verkefni, því fylgir ákveðin óvissa að hefja nýtt nám eða byrja á nýjum vinnustað. Og hvað þá þegar skipuleggjendur og kennarar eru að gera hlutina í fyrsta skipti. Ég er mjög stolt af þessum nemendahópi sem hefur tekist á við þetta verkefni af mikilli jákvæðni og opnum hug og sýnt mikla þolinmæði gagnvart þeim hnökrum sem óhjákvæmilega fylgja slíku tilraunaverkefni.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði í ávarpi við brautskráninguna að um væri að ræða eina af vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar:

Tilgangur námsins er auka atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu, auka möguleika þess og valdefla. Við erum gríðarlega stolt af þessu verkefni og stefnan er að halda áfram á komandi ári og árum enda sjáum við í þessu mikil tækifæri fyrir þátttakendur.

Starfsnám sitt tóku þátttakendurnir sex, sem eru á aldrinum 20-34 ára, á þremur leikskólum á Akureyri, Kiðagili, Hulduheimum og Naustatjörn, hjá Fagkaupum á Akureyri (Johan Rönning, Ísleifur og Vatn og veitur), í Ráðhúsi Akureyrar og á flokkunar- og endurnýtingarvinnustaðnum Hertex.

Jenný verkefnastjóri sagði í lok ávarps síns við brautskráninguna að hún væri þess fullviss að þessir fyrstu nemendur í verkefninu í SÍMEY hefðu að því loknu meiri skilning á virkni og þátttöku á vinnumarkaði:

Í þessu verkefni höfum við meðal annars lagt mikla áherslu á heilsueflingu og geðrækt og hvernig líkamleg og andleg heilsa fer saman. Við ræddum ólíkar leiðir að því að hlúa að líkama og hug, mikilvægi svefns og hvernig eitt leiðir af öðru. Ég er virkilega stolt af ykkur öllum. Þið eruð búin að ná frábærum árangri!

Bertha Dögg Bouman Maríudóttir, sem er 22ja ára gömul, segir að þetta nám hafi reynst sér mikilvægt á ýmsan hátt, það hafi verið fjölbreytt og gaman hafi verið að kynnast nýju fólki:

Námið styrkti mig, ég lærði ýmislegt sem mun nýtast mér vel í framhaldinu um líkamlega og andlega heilsu og um mikilvægi þess að borða hollan mat. Allt skiptir þetta máli varðandi m.a. svefn og andlega líðan. Námið opnaði augu mín fyrir ýmsu og það styrkti mig hundrað prósent í því að taka þá ákvörðun að halda áfram námi eftir áramót í Verkmenntaskólanum þar sem ég mun fara í áfanga í stærðfræði, íslensku og ensku. Ég hafði áður verið á starfsbraut í VMA en hætti námi en eftir þetta nám hér í SÍMEY hef ég ákveðið að halda áfram í Verkmenntaskólanum.

www.simey.is  sagði frá ð

Nýjast