Jólamyndahefðir sem vert er að njóta

 Jólin er tími samveru og góðra stunda með þínum nánustu. Oftar en ekki sest fjölskyldan saman fyrir framan sjónvarpið og horfir á góða jólamynd. Þessar jólamyndir geta verið alls konar og án efa velja allir einhverja, allavega eina, jólamynd sem þeir horfa á á hverju ári. Ef ekki, þá mæli ég sterklega með því að byrja með þá jólahefð að horfa saman öll fjölskyldan á allavega eina jólamynd yfir hátíðirnar.

Undirritaður fékk rúmlega 40 manns til að segja frá hver sé þeirra uppáhalds jólamynd og hver sé vanmetnust að þeirra mati. Svörin voru æði misjöfn en þó voru nokkrar myndir sem fengu flestu atkvæðin.

Home alone

Home alone kom út árið 1990 og fjallar um unga  vandræðagemlinginn Kevin sem óvart er skilinn eftir heima. Kevin þarf að vernda heimilið fyrir innbrotsþjófum sem ætla sér að ræna húsið á aðfangadagskvöld.

 

Aðalhlutverkið í myndinni leikur Macaulay Culkin en hann leikur Kevin. Joe Pesci og Daniel Stern leika innbrotsþjófana.

Myndin er bæði skemmtileg, fyndin og hugljúf með góðan boðskap. Mynd sem enginn ætti að láta fara fram hjá sér.

How the Grinch stole the Christmas

How the Grinch stole the Christmas kom út árið 2000 og leikur Jim Carrey Grinch sjálfan. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Dr. Seuss og fjallar um Grinch sem hatar jólin. Hann gerir áætlun um að eyðileggja jólin fyrir bæjarbúum Whoville.

 Þessi mynd nær sérstaklega vel til fólks bæði fyrir að vera fyndin og skemmtileg og líka fyrir ákveðinn spenning. Lengi vel var þessi mynd sýnd í sjónvarpinu á aðfangadag og er það alveg eitthvað sem mætti enn gera. Mæli eindregið með því að horfa á þessa mynd stuttu fyrir jól.

 The Holiday

The Holiday kom út árið 2006 og fjallar um tvær konur sem ákveða að skipta um heimili þar sem maður annarrar var ótrúr henni á meðan maðurinn sem hin var ástfangin af var að fara að giftast annarri konu. Stuttu eftir að þær eru komnar á heimili hinnar þá upplifa þær eitthvað sem þær bjuggust ekki við, nýrri rómantík. Þær kynnast báðar mönnum sem þær heillast af. Aðalhlutverkin í myndinni eru leikin af Kate Winslet, Cameron Diaz, Jude Law og Jack Black.

Þessi mynd er rómantísk gamanmynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Boðskapur myndarinnar er góður og gott er að njóta þess að vera í faðmi fjölskyldunnar að horfa á myndina.

Love actually

Love actually kom út árið 2003 og fjallar um þó nokkra einstaklinga sem allir eru tengdir á einhvern hátt. Myndin er í raun 9 mismunandi sögur sem fjalla allar um ást. Að lokum tengjast þessar sögur á einhvern hátt og ástin grípur alla, sem einmitt er íslenska nafnið á myndinni.

Meðal helstu leikara í myndinni eru Hugh Grant, Liam Neesom, Alan Rickman og Colin Firth. Það má því sjá að í myndinni eru heilmargar stórstjörnur og er myndin eftir því, stórmynd.

Myndinni er lýst sem hugljúfri og fallegri rómantískri jólamynd. Margir eiga sér þá hefð að horfa á þessa mynd allavega einu sinni á ári um hátíðirnar og er hún svo sannarlega hentug til þess.

 Sumar myndir eru ekki metnar nægilega vel að mati fólks en mættu skipa hærri sess að margra mati. Ekki er þar með sagt að þessar myndir séu betri en einhverjar aðrar jólamyndir – en kannski ekkert síðri.

Jólaósk Önnu Bellu

Teiknimyndin kom út árið 1997 og fjallar um mállausan dreng og kálf sem hefur þann hæfileika að tala. Þeir mynda með sér sterka vináttu og  læra hvað það þýðir að elska og fórna sér fyrir aðra. Boðskapur myndarinnar er í raun sá að draumar geta ræst.

The Polar Express

The Polar Express kom út árið 2004 og leikur Tom Hanks 6 karaktera í myndinni. Myndin er tölvugerð og fjallar um ungan dreng sem fer á aðfangadagskvöld í ævintýri með Polar Express lestinni á Norðurpólinn. Hann lærir þar um vináttu, hugrekki og anda jólanna.

Myndin er svo sannarlega töfrandi og jákvæð jólamynd sem fær mann til að trúa á anda jólanna.

Listi yfir jólamyndir sem hægt er að horfa á um jólin

☐ Muppet Christmas Carol

☐ The Polar Express

☐ How the Grinch stole the Christmas

☐ Elf

☐ Christmas with the Kranks

☐ Home alone

☐ Christmas vacation

☐ The Holiday

☐ Planes, Trains and Automobiles

☐ Last Christmas

☐ Christmas Chronicles

☐ Nightmare before Christmas

☐ Love actually

☐ Santa clause

☐ Christmas Carol

☐ Klaus

☐ Jólaósk Önnu Bellu

☐ Die hard

☐ Kremlins

☐ Family stone

☐ Violent night

☐ Jack Frost

☐ Daddy´s home

Nýjast