Jólaró

Sigrún V. Heimisdóttir og Inga HildurJóhannsdóttir skrifa
Sigrún V. Heimisdóttir og Inga HildurJóhannsdóttir skrifa

Nú styttist heldur betur í jólin.

Ímynd mín af jólunum byggir á því hvernig þau voru heima hjá mér í æsku. Á aðfangadag barst ilmur af hamborgarhrygg úr eldhúsinu, jólaljósin glitruðu í gluggunum og jólalög með Þrjú á palli hljómuðu á fóninum.

Það eina sem ég þurfti að hugsa út í var í hvaða barnaefni ég ætlaði að horfa á og hvenær ég færi í jólabaðið.

Síðan hafa árin liðið og ég hóf að halda jólin sjálf með maka og börnum. Þá áttaði ég mig á að jólunum fylgir gífurlegt skipulag varðandi ýmislegt s.s. gjafakaup, matarinnkaup, mætingar í mismunandi jólaboð og málamiðlanir um það hvort við fjölskyldan ætlum að vera hjá mínum foreldrum eða hans á jóladag.

Eins dásamleg og jólin eru þá getur aðdragandinn verið stressandi fyrir marga. En hvernig getum við notið jólanna með ró?

Þá er gott að vinna með góðu fagfólki sem getur gefið mér ráð sem ég ætla að deila með ykkur.

Jólin geta verið bæði gæðastundir og steitutími hjá mörgum og því oft flókið að átta sig á hvers vegna við upplifum álag. Samfélagsleg spenna um eitthvað ævintýri sem er í vændum ásamt allskonar kröfum um hamingju upplifun í nokkrar vikur, en einnig um efnislega hluti og dugnað. Væntingar aukast um ljúfa og gefandi samveru með fjölskyldu og vinum. Stundir sem fela gjarnan í sér málamiðlanir, ólíkar þarfir, flókin fjölskyldumynstur og hefðir. Jólastressið er tiltölulega algengt t.d. benda rannsóknir á að um 40% bandaríkjamanna finni fyrir hækkuðu streitustigi frá nóvember og fram í janúar. Fjárhagsáhyggjur virðast vera stærsti streituvaldurinn. Einnig að vera ekki með sínum nánustu, að ná ekki að gera „allt“ og upplifun um að hlutirnir séu yfirþyrmandi. Að finna réttu gjafirnar og hafa áhyggjur af því að samveran feli í sér álag eða togstreitu frekar en gleði.

Mikilvægt er að hlúa að andlegri líðan og heilsu þegar streituvaldar eru margir og mikið er um að vera. Hér eru nokkur bjargráð:

 ● Að halda í rútínu eins og hægt er.

 ● Skoða hvað hefur reynst gagnlegt hingað til á álagstímum.

 ● Leitast við að stilla væntingum í hóf og gera raunhæfar kröfur til sín og annarra.

 ● Huga að eigin viðhorfum og skoða hvað skiptir okkur mestu máli í raun. Hver eru mín „jólagildi“.

 ● Útivera, hreyfing og leikir jafnvel í örlitla stund á hverjum degi geta opnað „apótekið í heilanum“ sem færir okkur gleðitilfinningu, útrás og sátt.

● Núvitund og vakandi athygli gagnvart þeim litlu gleðigjöfum sem finna má í daglega lífinu, hversdagslegu hlutunum og andblæ stundarinnar.

● Leyfi til að afþakka eða segja nei. 

● Kyrra hugann eða hvíla kroppinn ef þess þarf.

 ● Stuttar pásur gera oft kraftaverk.

● Tjá líðan sína og sækja stuðning ef þarf sér í lagi ef tilfinningalífið tekur völdin með sorg, einmannaleika, kvíða eða annarri vanlíðan.

Þó að jólin geti verið mörgum álagstími er upplifun flestra þó einnig jákvæð og gefandi með dýrmætum minningum um ilminn úr eldhúsinu, samveru og hvíld.

 Jólaljósin glitrandi.

 Grein eftir Ingu Hildi Jóhannsdóttur, skrifstofustjóra og Sigrúnu V. Heimisdóttur, klínískan sérfræðing

 

Nýjast