20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Öðruvísi miðbæjarrölt.
Eins og ég hef komið inn á áður, þá þarf ekki alltaf að leita langt eftir skemmtilegum gönguleiðum.
Nú langar mig að koma með hugmynd að öðruvísi miðbæjarrölti.
Við hefjum gönguna við Umferðamiðstöðina og göngum upp skemmtilega stallaðar trétröppur upp að Sigurhæðum, húsi séra Matthíasar. Brekkan þarna er skemmtilega útfærð með gróðri og skemmtilegum fossum. Við göngum svo í norður og komum inn á kirkjutröppurnar, rétt ofan miðju. Við förum upp tröppurnar og upp Eyrarlandsveginn. Við göngum " í gegnum" Rósenborg, sem stóð austan götunnar þegar ég var lítill. Upp á horni er upplýsingaskilti um tilraunir til móttöku sjónvarpssendinga hér á Akureyri 1934-1936.
Á umferðareyju á milli Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis stendur skemmtileg stytta. Það er Útilegumaðurinn (Útlagar), afsteypa af styttu Einars Jónssonar frá 1901. Ég legg til að þið gangið að styttunni og skoðið hana vel. Finnið kraftinn, lífsbaráttuna og örlagasögu útlagans streyma frá henni. Það mætti að ósekju helluleggja í kringum styttuna og fjarlægja trén sem eru við hana svo hún njóti sín betur.
Það er upplagt að halda áfram og ganga nú inn á Menntaskólalóðina, þar sem taka á móti manni þrjú listaverk, sem gaman er að skoða. Ugla Menntaskólans, hoggin í stein eftir Pál Guðmundsson, Óðinshrafninn eftir Ásmund Sveinsson og Heimur vonar eftir Nóa okkar. Gangið svo upp með skólanum að norðan og upp á torgið sem tengir byggingarnar. Þar eru tvö listverk, Beinið fræga mótað í eir, af Helga Gíslasyni og Tilvera eftir Steinunni Þórarinsdóttur.
Gaman er að líta í kringum sig og sjá hversu vel hefur tekist að byggja við og stækka hús Menntaskólans og heimavistar og fá þau öll til að ríma saman, þótt á ólíkum tímum séu byggð.
Við göngum nú inn í Lystigarðinn í norðvestur horninu. Þar er hægt að eyða ómældum tíma, en í þetta skipti göngum við bara í gegnum hann og förum út um gamla aðalinnganginn. Við göngum svo út Eyrarlandsveginn og niður í Barðstúnið. Yst í Barðstúninu í suðurhlíðum Barðsgils er skemmtilegur stígur sem liggur niður brekkuna niður að Samkomuhúsi. Þessi stígur er kallaður Menntavegurinn, ef hann er genginn upp, en Glötunarstígur sé hann farinn niður. Hann er krókóttur og brattur og gaman að ganga hann. Þegar komið er niður að Samkomuhúsi, sem oft var kallað Gúttó í gamla daga, göngum við niður tröppurnar austan hússins, yfir flötina fyrir neðan og yfir Drottningarbrautina og skoðum listaverkið við nýja göngustíginn. Það er verkið Sigling, eftir Jón Gunnar Árnason. Það nýtur sín mjög vel á þessum stað.
Þessi leið er tæpir tveir kílómetrar og svolítið brött, en það er allt í lagi, það eru bekkir á leiðinni til að tilla sér á. Það tekur ekki nema svona hálftíma að ganga þessa leið og njóta útsýnisins yfir Pollinn og bæinn okkar í leiðinni. Að sjálfsögðu er hægt að ganga hinn hringinn ef menn vilja.
Gleymið ekki myndavélinni.