Nokkur mál af vettvangi Norðurþings
Nú er kjörtímabil sveitarstjórnar rétt rúmlega hálfnað um þessar mundir. Margt hefur gerst á þessum stutta tíma og er hér ætlunin að nefna sitthvað af því sem fengist hefur verið við. Kannski eru sveitarstjórnarfulltrúar ekki nógu duglegir að segja fréttir úr daglegu starfi og er hér svolítil viðleitni í þá veru. Þessu er þó alls ekki ætlað að vera tæmandi, heldur einungis gefa yfirlit nokkurra áhugaverðra mála sem við höfum fengist við á síðustu mánuðum.
Sorpmálin
Í upphafi kjörtímabils var staða sorpmála í Norðurþingi með þeim hætti að starfsemi órekstrarhæfrar sorpbrennslu Sorpsamlags Þingeyinga lá niðri. Nánast allt sorp frá sveitarfélaginu var urðað og aðstaða fyrir íbúa til flokkunar á sorpi til endurvinnslu afar takmörkuð. Þannig var Norðurþing í hópi þeirra sveitarfélaga á landinu þar sem staða í sorpmálum var lélegust hvort sem litið er til rekstrar- eða umhverfisáhrifa.
Þegar í upphafi kjörtímabils voru stigin stór skref, með innleiðingu 3ja íláta flokkunarkerfis fyrir Húsavík og suðurhluta Norðurþings. Stór hluti sorps sem fellur til fer nú í endurvinnsluferli og hefur Norðurþing því færst í stóru stökki á þann stað að vera meðal fremstu sveitarfélaga í meðhöndlun sorps.
Næsta verkefni í þessum efnum er að klára allt sveitarfélagið og gera áþekkar úrbætur í átt að endurvinnslu í norðurhluta Norðurþings, og verður þess ekki langt að bíða.
Bakkaverkefninu komið fyrir vind
Að landa verkefni PCC á Bakka við Húsavík hefur óneitanlega verið eitt af stærri verkefnum síðustu tveggja ára, og þó lengra væri horft aftur. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur margt komið upp sem hefur útheimt viðbrögð af ýmsu tagi í þessu verkefni. Sumt af því hefur ratað í opinbera umræðu, annað ekki.
Tafir og óvissa um fjármögnun voru helstu þröskuldarnir framan af og svo síðast en ekki síst óvænt útspil eftirlitsnefndar EFTA. Flóknir samningar um ýmsa hluti, bæði á uppbyggingartíma og til framtíðar hafa verið tíma- og orkufrekir.
Úrlausn margra og flókinna viðfangsefna af þessu tagi hefur útheimt mikinn tíma og útsjónarsemi sem hefur verið í fangi sveitarstjóra og hans fólks og ráðgjafa. Uppbygging er nú hafin en vinnu stjórnsýslunnar við verkefnið er þó hvergi nærri lokið og ný viðfangsefni því tengd sífellt að berast inn á borð hennar.
„Sveitarstjórn“ en ekki „bæjarstjórn“
Á síðasta kjörtímabili var gerð breyting sem mörgum íbúum þótti til verri vegar. Heitin „byggðarráð“, „sveitarstjórn“ og „sveitarstjóri“ voru þá aflögð og „bæjar-“ forskeytið sett fyrir framan í staðinn, eins og verið hafði hjá Húsavíkurbæ fyrir sameiningu. Þetta var eitt af því sem V-listi lagði af stað með fyrir kosningar að breyta. Það hefur nú verið gert.
Norðurþing er dreifkjarna sveitarfélag, með nokkrum þéttbýlisstöðum og landsstórum sveitum og taka nú hugtök stjórnsýslunnar mið af því. Sveitarstjórn starfar í Norðurþingi, með byggðarráð og sveitarstjóra.
Hverfisráð, öldungaráð og ungmennaráð
Mikil áhersla hefur undanfarin misseri verið lögð á aðgerðir í þágu aukins íbúalýðræðis á vettvangi sveitarstjórna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur m.a. ítrekað gefið út og sent frá sér hvatningar til að grípa til aðgerða í þessa veru. Meirihluti sveitarstjórnar hefur lagt nokkra áherslu á þetta og hefur nú verið tekin ákvörðun um nýjung, þ.e. að innleiða nýjar „gáttir“ fyrir íbúa Norðurþings til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með stofnun svæðisbundinna hverfisráða. Einnig öldungaráð og ungmennaráð í nýrri mynd.
Þessi ráð hafa nú fengið sérstakar samþykktir/reglur og munu öll hefja störf á þessu ári. Í skemmstu máli verður markmið ráðanna að skapa umræðuvettvang tiltekinna svæða og/eða hópa. Sérstök áhersla er lögð á að bjóða sjálfsprottnum samtökum að nýta sér ráðin.
Hugmyndin er að ráðin muni starfa „óflokkspólitískt“.
Ný heimasíða
Opnuð hefur verið ný heimasíða Norðurþings www.nordurthing.is.
Meðal markmiða við gerð nýrrar heimasíðu var að gera mikið sóttar upplýsingar aðgengilegri og að bæta aðgang að upplýsingum fyrir nýja íbúa og þá sem kunna að horfa til Norðurþings sem búsetukosts. "Dagbók úr Norðurþingi" er einnig til á Facebook þar sem sveitarstjóri gefur innsýn í viðfangsefni hversdagsins.
Hljóðupptökur sveitarstjórnafunda
Hafnar eru hljóðupptökur sveitarstjórnarfunda. Fyrsti fundur sem tekinn var upp var þann 26. janúar sl. Þetta markar ákveðin tímamót og má gera ráð fyrir því að héðan í frá verði ekki aftur snúið með þetta mál.
Upptökum fundanna er hlaðið upp á nýja heimasíðu Norðurþings.
Fjármál, rekstur
Það dylst engum að fjárhagur Norðurþings er þungur og hefur verið um langt skeið.
Hér verður ekki farið af dýpt ofan fjárhagsstöðuna og ekki heldur greindar ástæður þess að svo er komið fyrir sveitarfélaginu. En mikil vinna hefur þurft að fara í lagfæringar á rekstrinum og mun gera það áfram.
Ársreikningar sveitarfélagsins til mjög margra síðustu ára sýna að almennur rekstur er vart sjálfberandi. Hluti skýringanna er vissulega að hluta til erfitt rekstrarumhverfi sveitarfélaga um þessar mundir, m.a. fyrir samningsbundnar launahækkanir sem tekjur ná ekki að halda í við. Þetta sést á vondu uppgjöri margra sveitarfélaga af ólíkri stærð og gerð, þ.m.t. á helstu uppbyggingarsvæðum landsins.
Norðurþing glímir svo í ofanálag við eldri vandamál sem öðru fremur birtast í háum skuldum sem eru dýrar á fóðrum. Síðasti ársreikningur sveitarfélagsins sýnir glögglega þörfina á áframhaldandi vinnu næstu ára við glímuna við reksturinn. En tækifærin eru mörg framundan og tækifærum fylgja auknar tekjur.
Veitur og framkvæmdasvið vinna saman
Fyrir nokkrum árum síðan var hlutverki Orkuveitu Húsavíkur breytt og henni fyrst og fremst ætlað að sjá um veitureksturinn, þ.e. kalt og heitt vatn auk frárennslis.
Í anda þessara breytinga hefur nú fyrirkomulagi verið breytt nokkuð þannig að sem mest samlegð verði í vinnu starfsmanna sveitarfélagsins. Þannig vinna nú þær deildir sveitarfélagsins sem sjá um framkvæmdir (þjónustumiðstöð þ.m.t.) og veitumál (Orkuveitan) meira saman og undir einni verkstjórn.
Húsnæði sem áður hýsti afgreiðslu og skrifstofur fyrir Orkuveituna hefur verið leigt út og vinnuaðstaða veitnanna færð í samrekstur með öðrum einingum.
Breytingar í stjórnsýsluhúsinu
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vinnulagi innandyra í stjórnsýsluhúsi Norðurþings. Húsnæðinu sjálfu verið breytt svolítið, með lágmarkskostnaði þó, með það í huga að auka samstarf milli fólks og sviða og um leið nýta fermetra betur. Þessu hefur fylgt innleiðing opinna vinnurýma í stjórnsýsluhúsi í stað lokaðra skrifstofa þar sem því er verður við komið.
Eins hafa verið gerðar breytingar á starfslýsingum og hlutverkum að nokkru leyti, m.a. þannig að mannauður nýtist betur á milli ólíkra sviða.
Hafnamál í nýjan farveg
Ákvörðun var tekin um að breyta fyrirkomulagi hafnarrekstrarins. Ný sjálfstæð hafnanefnd hefur verið sett upp og fyrirkomulagi rekstrar breytt með nýju starfi rekstrarstjóra sem hefur m.a. markaðsmál og rekstur á sínum höndum.
Markmið þessara breytinga var ekki síst að mynda skipulag sem er sem best í stakk búið til að takast á við hin gríðarstóru verkefni sem snúa að uppbyggingu hafnarsvæðisins við Húsavík, en þar standa fyrir dyrum stórar fjárfestingar í mannvirkjum á sama tíma og ferðaþjónustan hefur sífellt aukna þörf fyrir athafnarými.
Skipulagsmál
Að mörgu þarf að hyggja á uppbyggingartíma og í undirbúningi fyrir uppbyggingu.
Eitt er að skipulag þarf að liggja fyrir svo hægt sé að byggja upp iðnaðarhúsnæði, íbúðarhúsnæði og fleira. Því hefur á tímabilinu verið lögð mikil vinna í gerð deiliskipulaga fyrir svæði sem fyrirsjáanlegt er að þörf verður fyrir.
Þannig var deiliskipulag unnið fyrir Norðurfjöru þar sem ný landfylling er að líta dagsins ljós. Einnig voru tekin upp deiliskipulag suðurfjöru, miðhafnarsvæðis, íbúðasvæðis í reitnum og iðnaðarsvæðisins á Kaldbaksleiti. Með allri þessari vinnu hefur verið tryggt að til séu skipulagðar lóðir undir hafnsækna starfsemi, iðnaðarstarfsemi og íbúabyggð.
Mikill vilji er til að bæta ásýnd Öskjureits, malarsvæðis í hjarta bæjarins sem stingur í augun. Til að hefja framkvæmdir þar þurfti fyrst að gera deiliskipulag, það hefur verið gert og vonandi þurfum við ekki að berjast við malarrykið þar lengi enn.
Það er einnig sérlega ánægjulegt að samþykkt hefur verið að unnið verði deiliskipulag fyrir Heimskautsgerðið á Raufarhöfn, en það er ein forsendan fyrir áframhaldandi uppbyggingu á því magnaða náttúrulistaverki.
Leikskóli keyptur og inntökualdur lækkar
Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík var keyptur út úr afleitum leigusamningi við Fasteign ehf. Leigusamningur þessi var bundinn til langs tíma og Norðurþing bar að auki allan viðhaldskostnað án þess að eignamyndun yrði á samningstímanum.
Eignin var keypt að fullu, án þess þó að áhrif yrðu á skuldahlutfall þar sem skuldbinding leigusamningsins hafði áður verið bókfærð. Vonir standa til þess að þegar fram líða stundir muni þetta verða verulega hagstæðara.
Það fyrsta sem barnafólk kannar þegar það hyggst flytja á nýjan stað eru skólamál. Er grunnskólinn góður? Er gott aðgengi að leikskóla? Ekki hefur verið grundvöllur fyrir svokölluðu dagforeldrakerfi í sveitarfélaginu og ennfremur umdeilanlegt hvort sveitarfélag eigi að reiða sig á það sem úrræði fyrir yngstu börnin. Það var því aðkallandi að leysa vanda foreldra með lítil börn.
V-listi lagði upp með það fyrir kosningar að færa allmennt viðmið inntökualdurs niður í 12 mánaða aldur. Þetta hefur nú verið gert. Þetta kallaði einkum á endurskipulagningu í stærsta leikskólanum, Grænuvöllum, sem starfsfólk og stjórnendur þar hafa leyst einstaklega vel af hendi.
Á svipuðum tíma var tekin ákvörðun um að hefja aftur rekstur leikskóladeildar á Kópaskeri. Þar hafði börnum á leikskólaaldri fjölgað og forsendur taldar fyrir rekstri lítillar leikskóladeildar. Því miður hefur nýting ekki verið eins og vænst var, því var brugðið á það ráð að setja viðmið um fjölda. Þ.e. deildin verður rekin sé eftirspurn.
Innviðir í Norðursýslu
Svæðið frá Kelduhverfi til og með Raufarhöfn er hluti af verkefni sem Byggðastofnun leiðir og ber yfirheitið brothættar byggðir. Verkefnin hér hafa fengið heitin "Raufarhöfn og framtíðin" og "Öxarfjörður í sókn".
Verkefnin eru tilkomin vegna þess að líkt og engum hefur dulist hefur byggð á þessu svæði háð varnarbaráttu til margra ára eða áratuga. Eitt af stóru og um leið flóknu verkefnum sveitarfélagsins er að sjá til þess að grunnþjónusta sú sem sveitarfélaginu ber að veita sé til staðar fyrir íbúana.
Norðurþing niðurgreiðir rekstur þjónustu banka og póstsins á Raufarhöfn með myndarlegum hætti. Þetta er óvenjulegt og sannarlega ekki hlutverk sveitarfélaga almennt að vera í slíkum rekstri. Forsendan er þó sú að leita leiða til að viðhalda grunnþjónustu í þeirri varnarstöðu sem tekin er gegn erfiðri íbúaþróun síðustu ára.
Skólamál eru flókið úrlausnarefni í fámennum samfélögum hér sem og annars staðar. Taka þarf tillit til tveggja grunnnþátta, réttinda barna til náms í frjóu og góðu skólaumhverfi og rekstrarþátta. Þrátt fyrir ánægjulega íbúafjölgun á Raufarhöfn á síðasta ári er skólinn þar fámennur og er það skylda sveitarstjórnar að leita þeirra leiða sem veita nemendum sem best skilyrði til náms og leiks.
Allt hefur verið gert til að halda úti grunn- og leikskólaþjónustu í þéttbýliskjörnunum, svo fremi sem nægileg eftirspurn er til staðar. Þannig hafa grunnskólinn og leikskólinn á Raufarhöfn verið reknir myndarlega þrátt fyrir mjög fá börn og eins haldið úti leikskólaþjónustu á Kópaskeri eins og áður hefur verið rakið. Markmið þessa hefur augljóslega verið að að viðhalda búsetuskilyrðum barnafjölskyldna.
Samvinna skólaeininga verður áfram lykilþáttur í að halda skólastarfinu öflugu á svæðinu, vonandi með vaxandi fjölda barna á ný. Og útgangspunkturinn þarf alltaf að vera hagsmunir barnanna sjálfra.
Úrbætur hafna á Kópaskeri og Raufarhöfn
Í upphafi kjörtímabils var lokið við fjárfestingu í hafnarmannvirkjum á Raufarhöfn og eins bætt vinnuaðstaða hafnarvarðar með kaupum á nýjum vigtarskúr. Þá tókst með nokkurri fyrirhöfn að fá fjárframlög frá ríkissjóði til nauðsynlegrar dýpkunar á Kópaskershöfn, sem verið hefur illnothæf undanfarin ár vegna sandsöfnunar.
Norðurþing þurfti að greiða töluvert á móti í þessari framkvæmd, en henni lauk sl. sumar.
Þingeysk samvinna efld á ný
V-listi hafði það að sérstöku markmiði að ná fram úrbótum í samstarfi þingeyskra sveitarfélaga, en undanfarin ár hefur fjarað svolítið undan rótgrónu samstarfi þingeyskra sveitarfélaga um ýmis mál.
Þessi þróun á sér eflaust innri ástæður að nokkru leyti, en þó gerðist það einnig fyrir fáum árum að lagaumhverfi sveitarfélaga breyttist í þá veru að „héraðsnefndir“ átti sér ekki lengur skýran farveg í stjórnsýslunni, heldur varð áherslan ríkari á landshlutasamtök. Þessu hefur nú verið brugðist við með afgerandi hætti.
Héraðsnefnd Þingeyinga kom saman á fundi undir lok síðasta árs og samþykkti stofnun nýrra heildarsamtaka þingeyskra sveitarfélaga, þ.e. byggðasamlag á grunni héraðsnefndarinnar gömlu sem öll sveitarfélögin hafa nú staðfest aðild að.
Norðurþing á þó áfram aðild að landshlutasamtökunum Eyþingi og starfar þar að hagsmunagæslu og verkefnum sem falla að öllu Norðausturlandi. Núverandi meirihluti Norðurþings leggur þó ekki síður áherslu á að viðhalda hinni rótgrónu samvinnu Þingeyinga um ýmis mál og bindur vonir við að hið nýja byggðasamlag muni eiga þátt í að treysta samstarf við nágrannasveitarfélögin.
Ljósleiðarar í dreifbýli Norðurþings
Það hefur eflaust valdið sveitarstjórnarfólki í Norðurþingi jafnmiklum vonbrigðum og íbúum hvernig komið er í uppbyggingu grunnnets samskipta í dreifbýli á Íslandi.
Eftir vanhugsaða sölu þáverandi stjórnvalda á grunndreifikerfi Símans fyrir allmörgum árum hefur ríkisvaldið lítið náð að gera til úrbóta. Stefna hefur verið óljós líka sem gerir sveitarfélögum erfitt fyrir að réttlæta fjármuni í verkefni sem með réttu eiga ekki að falla í skaut þeirra.
Hjá Norðurþingi er þó verið að leita leiða, og ljóst að ekki er hægt að bíða endalaust. Þannig hefur verið ákveðið að leggja ljósleiðara með nýrri hitaveitu í Kelduhverfi þegar tekst að ljúka henni. Einnig var ákveðið að koma ljósleiðara frá hreppamörkum við Svalbarðshrepp inn í þorpið á Raufarhöfn. Í Reykjahverfi er gert ráð fyrir því að tryggja ljósleiðara samhliða endurnýjun hitaveitulagnar sem vonandi tekst að hrinda í framkvæmd fljótlega í hverfinu.
Í öllum þessum verkefnum verður kapp lagt á að ríkisvaldið standi við sínar skyldur.
Áhersla á eflingu Vatnajökulsþjóðgarðs
Norðurþing tilnefnir nú formann svæðisráðs Norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og einnig stjórnarmann í Vatnajökulsþjóðgarði. Sú breyting hefur nú náðst í gegnum stjórnkerfi þjóðgarðsins að frá vori 2016 mun Gljúfrastofa í Ásbyrgi hefja heilsársopnun.
Þetta er kærkomin breyting fyrir ferðaþjónustuaðila og heimafólk þar sem lokað hefur verið stærstan hluta ársins til þessa. Jafnframt fékkst samþykkt í stjórn þjóðgarðsins nýverið að nýta lagaheimild sem fyrir er til að ráða tvo þjóðgarðsverði á Norðursvæði, þ.e. annan með fasta starfsstöð í Ásbyrgi og hinn í Mývatnssveit.
Húnæðismálin
Mikil umræða hefur verið um húsnæðismálin á þessu kjörtímabili. Hluti hennar reyndar á landsvísu þar sem vandamálin eru áþekk í hinum dreifðu byggðum, þ.e. vöntun á íbúðarhúsnæði og búsetuúrræðum.
Víða stendur markaðsverð tæplega undir nýbyggingarkostnaði og lítil endurnýjun orðið á húsnæðismarkaði. Það bendir margt til þess að þetta sé að breytast til betri vegar með jákvæðri þróun fasteignaverðs á Húsavík.
Undanfarið hafa stór mál komið inn á borð Norðurþings í þessum efnum. Þar á meðal áform PCC Seaview Residences ehf. um byggingu hverfis/gatna í Holtahverfi á Húsavík.
Ný húsnæðislöggjöf hefur einnig sett af stað vinnu við umfangsmikla endurskoðun rekstrar og eignarhalds á íbúðarhúsnæði sem nú er í eigu Norðurþings. Um þessar mundir er leitað leiða til að koma af stað nýbyggingum. Unnið hefur verið út frá þeim útgangspunkti að gefa hvergi eftir í kröfum um gæði, þ.á.m. við val á útfærslu byggingar og efnum.
Spennandi tímar framundan
Það er bjart framundan í Norðurþingi. Margt að gerast í atvinnulífinu og samfélagið líflegt.
Fyrri tvö ár þessa kjörtímabils hafa þurft að fara mikið í breytingar á ýmsum þáttum sem greint hefur verið frá að framan. Stór verkefni og glíman við reksturinn útheimt mikinn tíma.
Á síðari hluta kjörtímabilsins þarf að gefast tækifæri til að horfa meira inn á við. Leitast við að efla og bæta innviði sveitarfélagsins, þ.m.t. viðhalda og þróa nauðsynlega þætti til áframhaldandi góðra búsetuskilyrða. T.d. sjá til þess að skólaþjónusta verði áfram öflug, búsetuskilyrði fatlaðra og aldraðra verði góð, ná hreyfingu á húsnæðismarkað.
Vonandi reyna að snúa frá því svelti sem verið hefur í viðhaldi eigna, mannvirkja og gatna til margra síðustu ára. Hver veit nema takist að eyða hinum frægu malargötum og -plönum sem Húsavík hefur varðveitt svo vel.
Í öllu falli munum við leggja okkur fram.
Fyrri hluti þessarar greinar birtist í Skarpi 6. október og síðari hluti hennar mun birtast í blaðinu 13. október.
Óli Halldórsson
Sif Jóhannesdóttir
Fulltrúar V-lista í sveitarstjórn Norðurþings.