20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Námsferð til Lettlands
Nú í apríl hélt lítill hópur af nemendum úr HA í viku ferð til Riga í Lettlandi. Ég er fjarnemi í nútímafræði og var svo lánsamur að bjóðast að fara með. Fararstjórinn í ferðinni var sjálfur Markus Meckl en auk hans voru einnig Sigrún Stefánsdóttir og Birgir Guðmundsson frá Háskólanum, auk nokkurra viðhengja sem fengu að fljóta með.
Auk þess að skoða, fræðast og skemmta sér var hver nemandi að vinna verkefni sem tengdist á einhvern hátt landinu eða menningu þess. Verkefni þessarar ferðar var að finna efni og skrifa um það blaðagrein. Það var af nógu að taka og fjölbreytni greinanna mikil. Við nemendurnir heimsóttum misjafna staði þar sem við tókum viðtöl og skrifuðum í kjölfarið greinar um flóttamenn, íþróttamál, munaðarleysingjaheimili, skipasmíðar, söfn og stöðu blaðamanna. Sjálfur vann ég að grein sem fjallar um mansal og ræddi meðal annars við aðila sem vinnur við að hjálpa einstaklingum sem lent hafa í slíku. Í umræðunni um mansal í Evrópu koma Balkan löndin gjarnan í hugann. Þau lönd eiga því miður langa sögu tengda mansali en þar hefur engu að síður mikið verk verið unnið og það er því margt sem við Íslendingar getum lært af þeirra reynslu. Það var mjög áhugavert að vinna að þessari grein og munuð þið væntanlega getað lesið afrakstur þeirrar vinnu fljótlega, auk þeirra greina sem hinir skrifuðu. Afrakstur þessarar vinnu okkar var svo í ferðinni kynntur fyrir fulltrúum Háskólans í Riga.
Riga er frábær borg og þar er í raun allt sem íslenskur hugur girnist. Ég er þá ekki bara að tala um H&M. Miðbærinn, hinn svokallaði Gamli bær, er ótrúlega fallegur með sínum gömlu húsum, steinhlöðnum strætum og fjöldann allan af verslunum og veitingahúsum. Þar er einnig meðal annars einn stærsti útimarkaður í Evrópu, áhugaverð söfn, merkilegar byggingar og síðast en ekki síst mikil og þrúgandi saga þjóðar sem hefur gengið í gegnum margar hörmungar og fékk ekki sjálfstæði fyrr en undir lok síðustu aldar.
Það er ómetanleg reynsla og lærdómur að fá að heimsækja slíkan stað með jafn fróðum manni og Markusi. Hann arkaði með okkur um borgina og fræddi okkur um það sem hafði gerst í gegnum tíðina. Eitt af því sem er mjög eftirminnilegt er heimsókn okkar í hið svokallaða Gyðinga gettó en þar blæs sagan ísköldum raunveruleika niður um hálsmálið á manni á hverju götuhorni. Í seinni heimsstyrjöldinni tóku Nasistar Lettland á sitt vald og var þá lettneskum Gyðingum safnað í þetta fátækrahverfi. Í september árið 1941 tóku Nasistar þá ákvörðun að senda þýska Gyðinga til austurs og þar sem ekki var pláss fyrir fleiri Gyðinga í Minsk var ákveðið að lestirnar stoppuðu í Riga. Var þá hinum lettnesku Gyðingum smalað út úr húsum sínum í hverfinu og þeir leiddir út í skóg þar sem þeir voru skotnir. Á tveimur helgum er talið að um 27.500 menn, konur og börn hafi verið drepin. Þetta fjöldamorð er talið vera ein helsta ástæða þess að Nasistar tóku upp gasklefana. Þessi aðferð var of erfið fyrir þá sem tóku í gikkinn. Það var furðulegt að ganga um auð stræti hverfisins, framhjá tómum niðurníddum húsum og sjá fyrir sér þegar fjölskyldur voru reknar hrópandi og grátandi út úr húsum sínum, vitandi hvað beið þeirra. Grimmd mannsins getur verið óskiljanleg.
Við fórum einnig í sólarhringsferð til borgar sem heitir Daugvavpils og stendur nálægt landamærum Rússlands. Markus, Sigrún og Birgir voru þar að tala á ráðstefnu í Háskólanum en við nemarnir fengum á meðan skoðunarferð um borgina í boði lettneskra háskólanema. Það var ótrúlega skemmtileg ferð og þrátt fyrir smá íslenskt veður þann dag þá heillaðist ég að borginni og væri til í að fara þangað aftur. Í þeirri borg, sem er sú næst stærsta í Lettlandi, er yfir 90% íbúanna rússneskt mælandi og þeir skilgreina sig í raun sem Rússa. Sú staðreynd var meðal annars ein ástæða þess að því var haldið fram í nýlegum fréttaskýringaþætti á BBC að þriðja heimsstyrjöldin myndi hefjast einmitt í þeirri borg. Þarna væri næsta vígi Pútíns á leið sinni til vesturs, eftir að hafa tekið Úkraínu. Ég ræddi þetta nú við nokkra Daugavpils íbúa og vildu þeir ekki gefa mikið fyrir þennan þátt, sem engu að síður hafði verið talsvert í umræðunni. Sögðu þeir að samband rússnesk mælandi og lettnesk mælandi íbúa væri gott.
Þetta er ekki fyrsta ferðin til Riga sem boði hefur verið upp á fyrir nemendur HA. Ég veit ekki hvort þetta muni standa til boða á næsta ári en ef svo verður þá get ég ekki annað en mælt hundrað prósent með þessu. Gott nám snýst ekki bara um að hlusta á fyrirlestra skila verkefnum og taka próf. Gott nám byggir á fjölbreytni sem víkkar hjá manni sjóndeildarhringinn og þroskar mann. Ferð eins og þessi er ómetanlegt innlegg til slíks.
Birgir Örn Guðjónsson