Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Þúfa 46
Þriðjudaginn 25. febrúar kl. 17-17.40 heldur listafólkið Karólína Baldvinsdóttir og Kristján Helgason Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Þúfa 46. Þar munu þau fjalla um samvinnustofur 11 listamanna á Eyrinni á Akureyri sem tóku til starfa í ársbyrjun. Í Þúfu 46 eru vinnustofur, námskeið, sölugallerí og viðburðir, en húsnæði hýsti áður smíðaverkstæðið Valsmíði í Gránufélagsgötu 46.
Karólína Baldvinsdóttir útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2014 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Hún var formaður Myndlistarfélagsins á Akureyri 2018-2022, situr í stjórn Gilfélagsins og starfar nú sem framhaldsskólakennari í list- og skapandi greinum í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Kristján Helgason fæddist á Akranesi 1963 og hefur búið og starfað á Akureyri frá 2008. Hann hefur tekið þátt í listaverkefnum og samsýningum og er í stjórn Myndlistarfélagsins á Akureyri.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Þórgunnur Þórsdóttir, listakona, Angelika Haak, myndlistarkona, Brynja Baldursdóttir, myndlistarkona, auk fulltrúa Myndlistarfélagsins.