Ekki bara jafnréttisvöfflur, sulta og rjómi

Frá vinstri. Berglind Hólm Ragnarsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Hildur Friðriksdóttir. Berglind er fy…
Frá vinstri. Berglind Hólm Ragnarsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Hildur Friðriksdóttir. Berglind er fyrrverandi formaður jafnréttisráðs. Myndir aðsendar

Á fimmtudaginn í síðustu viku lauk jafnréttisdögum 2025 og að vanda tók Háskólinn á Akureyri virkan þátt. Dögunum lauk með vel heppnuðu málþingi. Yfirskrift málþingsins var Hatursorðræða: Þróun og áskoranir á tímum gervigreindar, samfélagsmiðla og upplýsingaóreiðu. Erindi voru frá Eyrúnu Eyþórsdóttur, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, Helga Frey Hafþórssyni, verkefnastjóra margmiðlunar hjá KHA, og Ingunni Láru Kristjánsdóttur, verkefnastjóra fréttaþjónustu á samfélagsmiðlum hjá RÚV. Sigrún Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur, var fundarstjóri. Málþingið var vel sótt og áttu líflegar umræður sér stað að erindum loknum.

„Það er gríðarlega mikilvægt þegar við sjáum sláandi bakslagið í jafnréttismálum þessa dagana í Bandaríkjunum að halda uppi málefnalegri umræðu um fjölbreytt viðfangsefni á sviði jafnréttismála. Ég tel að það hafi verið afar brýnt að einblína á hatursorðræðu á málþinginu í HA þar sem staðan á Íslandi er því miður sú að fordómafull umræða í garð minnihlutahópa hefur aukist og fólk er að leyfa sér að segja mun meira en áður. Ég var sérstaklega ánægð með hvað málþingið var vel sótt og að nú sé komin í loftið vefsíða sem geymir upptökur af málþingum okkar svo fleiri geti notið þeirra í framtíðinni,“ sagði Sæunn Gísladóttir, starfsmaður Jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri.

Fyrir þingið var boðið upp á hinar sívinsælu jafnréttisvöfflur í Miðborg í HA. Meðlimir Jafnréttisráðs ásamt SHA stóðu að undirbúningi, bakstri og frágangi og hlupu margir á ilminn af vöfflunum. Á sama tíma kom Áslaug Ásgeirsdóttir rektor og kynnti nýja og metnaðarfulla jafnréttisáætlun háskólans.

Hildur fær sér jafnréttisvöfflu

Hildur Friðriksdóttir, formaður jafnréttisráðs, var ánægð með dagana og þá sérstaklega nýsamþykkta jafnréttisáætlun. „Jafnréttisáætlunin var unnin í nánu samráði við stúdenta og starfsfólk skólans í gegnum opnar vinnustofur og kannanir. Í því ferli kom fram skýr vilji til þess að útvíkka áætlunina þannig að hún tæki nú einnig til sjónarmiða varðandi fjölbreytileika og inngildingu. Þær áherslur eru kannski ekki síst mikilvægar á tímum þar sem sótt er að mannréttindum ýmissa jaðarsettra hópa í heiminum í dag“

Andy og Fjóla, meðlimir jafnréttisráðs, standa vöffluvaktina

Fjórir dagar af vitundarvakningu

Jafnréttisdagar voru að þessu sinni haldnir dagana 10. til 13. febrúar í öllum háskólum landsins. Hatursorðræða og mismunun voru meginþemu. Auk ofangreinds málþings voru fjölmargir áhugaverðir viðburðir í boði, bæði í streymi og innan veggja háskólanna.

Opnunarviðburður Jafnréttisdaga, „Frá algrími til jafnréttis: Getur gervigreind unnið gegn mismunun á atvinnumarkaði?“, var haldinn rafrænt mánudaginn 10. febrúar. Dagana á eftir voru viðburðir haldnir á staðnum í HA og var viðburðum einnig streymt frá háskólanum.

Þriðjudaginn 11. febrúar hélt Audrey Louise Matthews, lektor við hjúkrunarfræðideild HA, fyrirlesturinn „Inngilding erlends starfsfólks og nemenda: Hvernig getum við gert betur?“ Þar fór hún meðal annars yfir algeng þemu frá erlendu starfsfólki og nemendum varðandi inngildingu og stuðning við störf þeirra við HA. Hlutverk inngildingarmeistara (e. inclusion champion) var kannað og tillögur gerðar til að aðstoða erlenda nemendur og starfsfólk til að verða öruggara og ná fullri hæfni í hlutverkum sínum.

Sama dag hélt Valgerður Guðmundsdóttir, lektor við lagadeild HA, örfyrirlestur „Norrænt kynjajafnrétti og konur á flótta“. Þar fjallaði hún um rannsóknir hennar á sviði flóttamannaréttar og jafnréttislöggjafarinnar. Hún lagði áherslu á flóttamannahugtakið sjálft, líkt og það er skilgreint í lögum, og hið flókna samband sem það á við stöðu kvenna, kynjasamþættingarsjónarmið og hvaða áhrif innleiðing þeirra gæti haft á málsmeðferð stjórnvalda í þessum málum.

Sæunn og Hildur standa sitthvoru megin við fyrirlesara fimmtudagsins ásamt fundarstjóra

Miðvikudaginn 12. febrúar mættu Thelma Eyfjörð Jónsdóttir og Björgvin Heiðarr frá Berginu Headspace á staðinn og kynntu starfsemina.

Á vefsíðu Jafnréttisdaga má nálgast upptökur af öllum viðburðum sem voru í Háskólanum á Akureyri.

 

Nýjast