Hvar eru sveitarstjórnarmenn?

Sigurður Bibbi Sigurðarson skrifar
Sigurður Bibbi Sigurðarson skrifar

Það er nokkuð ljóst að tekist var á um þá tillögu sem ríkissáttasemjari bar á borð fyrir KÍ, ríkið og sveitarstjórnir.

 Það var ekki tekist á í KÍ þar sem samstaða var um að forðast verkföll og sættast á tillögu ríkissáttasemjara þrátt fyrir að hún innihéldi ekki ítrustu og að margra mati sanngjörnustu kröfu kennara, að gangast sem fyrst við samkomulagi frá 2016. Sveitarfélög víðs vegar um landið voru kölluð til, til að fara yfir þessa tillögu, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að samninganefnd SÍS væri með umboðið til að semja og færi þar með, með allan samningarétt sveitarfélaga. Annað kom á daginn. Þegar samningstilboð, sambærilegt við það sem hafði áður legið á borðinu og samninganefnd sveitarfélaga samþykkti, sagði samninganefndin „NEI“.

Hvers vegna?

Var það vegna þess að þeim leist ekki á tilboð sem þeim leist vel á 20 dögum fyrr á?

Var það vegna þess að það var óþægilegt að KÍ hefði verið fyrr til að segja „JÁ“?

Var það vegna þess að stjórnmálaleiðtogar í sveitarfélögum voru í öðrum flokkum en þeim í ríkisstjórn og vildu ekki gefa þeim heiðurinn að samkomulagi við kennara?

Var það vegna þess að þeir flokkar, Framsóknarflokkurinn og Sjálfsstæðisflokkurinn, sem skrifuðu undir samkomulagið 2016 og gerðu ekkert í því að uppfylla það á þeim árum sem þeir stjórnuðu, vilja alls ekki að þeirra samkomulag verði uppfyllt af þeirra verstu óvinum, burtséð á hverjum það bitnar?

Var það vegna þess að Samband íslenskra sveitarfélaga veit að það mun aldrei stuðla að því að kennarar fái greidd laun s.kv. ábyrgð, álagi og menntun eins og aðrir og þess vegna er betra að vera án þeirra en með þeim?

Var það vegna þess að sveitarstjórnarmenn sjá að með því að fækka kennslusérfræðingum með láglaunastefnunni í skólum landsins geta þau sparað og hagrætt?

Nú eru það sveitarstjórnarmenn sem þurfa að svara opinberlega hvar þeir stóðu og standa í þessari kjaradeilu.

Bæjarstjóri Akureyrar, formaður bæjarráðs, formaður menntamála hjá Akureyrarbæ? Hvar standið þið?

Við kennarar á Akureyri eigum rétt á að vita hvar þið standið, fyrir hvað þið standið og hvers vegna?

Við vonumst eftir svörum frá ykkur hér á Vikublaðinu sem allra fyrst.

Við erum vonsvikin.

Við erum reið.

Við erum undrandi.

Við erum særð.

Við erum brjáluð.

Við erum niðurbrotin.

Við erum að fótum fram komin.

Við erum niðurlægð.

Við erum svekkt.

Við erum svo ótal margt annað.

En umfram allt. Við erum kennarar, sérfræðingar í kennslu, og berum hag barnanna fyrir brjósti. Við sjáum enga leið út úr vandanum nema að þið, sem við kusum, í bæjarstjórn, stígið fram og segið ykkar hug.

Við viljum vita hvar við höfum ykkur.

Bibbi, kennari á Akureyri

Nýjast