Lygar á lygar ofan og tilþrifamikill misskilningur

Kolbrún Ada, Benóný, Valgeir og Friðrika í hlutverkum sínum. Myndir/epe
Kolbrún Ada, Benóný, Valgeir og Friðrika í hlutverkum sínum. Myndir/epe

„Sex í sveit“ fjallar um hjónakornin Benedikt og Þórunni sem skella sér í sumarbústað í Eyjafirði, bæði með sitt leyndarmálið í farteskinu. Benedikt hugsar sér gott til glóðarinnar þegar eiginkonan hyggur á heimsókn til móður sinnar og býður bæði viðhaldinu og vini sínum til veislu. Allt gengur samkvæmt áætlun þar til eiginkonan ákveður að vera um kyrrt. Þá hitnar í kolunum og þegar veisluþjónustan bætist í hópinn ætlar allt um koll að keyra. Verkið fjallar um ást í meinum, lygar á lygar ofan og tilþrifamikinn misskilning þar sem flækjustigið verður sífellt flóknara og um leið spaugilegra. Hér er um að ræða sanna hláturbombu sem ætti að koma richterskalanum af stað þegar áhorfendur hristast um af hlátri.

 

Benóný Valur Jakobsson fer með hlutverk Benna í Sex í sveit. Myndir/epe 

 

Allt að smella saman

Benóný Valur Jakobsson fer með eitt sex hlutverka í leiknum en Vikublaðið ræddi við hann eftir æfingu í byrjun vikunnar en hann sagðist vera orðinn verulega spenntur fyrir frumsýningu enda í miðjum endaspretti æfinga.

„Ég leik Benna sem er annað af aðalhlutverkunum. Þetta er gríðarlega mikið fjör,“ segir Benóný sveittur eftir leikæfingu þar sem allt er farið að smella saman.

Verkið er ekki stórt í sniðum í þeim skilningi að ekki er um mörg hlutverk að ræða. Þrjú karlhlutverk og þrjú kvenhlutverk. Benóný segi að það henti ákaflega vel að setja upp verk af þessu tagi í Samkomuhúsinu, en þó að hlutverkin séu fá, þá sé það ekki minna krefjandi fyrir það, nema síður sé. „Það fylgir því náttúrulega að þegar það eru svona fá hlutverk þarf hver og einn að segja meira, þannig að þetta er á vissan hátt meira krefjandi. Þetta er bara farsi af bestu gerð og það er óhætt að lofa góðri skemmtun og miklum hlátri,“ segir Benóný.

Frábær hópur

Benóný segir jafnframt að æfingar séu búnar að ganga vel enda sé þetta mikil keyrsla. Það geri þetta engin með hálfum hug. „Dýnamíkin í hópnum er geggjuð. Það eru vanir menn og konur í hverju hlutverki, þannig að það þurfti ekki að byrja á því að kenna neinum að leika. Það hjálpar alltaf í svona uppsetningum,“ segir Benóný í léttum dúr.

Benóný er aldeilis ekki að stíga á svið í fyrsta sinn, hann hefur verið virkur í LH árum saman og leikið í fjölda uppsetninga. Aðspurður hvað það sé sem togar í hann að taka þátt í áhugaleikhúsi, bregst hann fyrst við með því að ó-a og æ-a enda brjálað að gera svo skömmu fyrir frumsýningu. „Úff,“ segir Benóný og hlær. „Ég spyr mig að þessu í hvert sinn þegar líða tekur að frumsýningu. Það er klárlega mikill tími sem fer í þetta. Við æfum sex daga vikunnar, 3-4 tíma í senn. Þannig að þetta er mjög mikil keyrsla. En þó að maður grenji svona á þessum tímapunkti, þá eru einhverjir töfrar við þetta sem gerir það að verkum að maður vill alltaf gera þetta aftur. Þetta er frábær félagsskapur og bara hrikalega gaman. Það er það sem dregur mann alltaf inn í þetta aftur. Svo er auðvitað gefandi að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins.“

Gamanleikir alltaf vinsælir

Benóný viðurkennir að það sé orðið meira krefjandi að draga fólk í leikhús á síðustu árum. „Jú, samkeppnin um afþreyingu er alltaf að verða meiri. Þegar sýningar gengu sem best hér í gamla daga og fóru upp í 40-50 sýningar, þá var ekki einu sinni sjónvarp á fimmtudögum,“ segir Benóný og hlær. „Það er töluverður munur þar.“

Hann telur að farsi sé yfirleitt góð uppskrift að góðri aðsókn. „Jú, enda er það alltaf gert með reglulegu millibili til að fá pening inn í kassann, þannig að félagið standi réttu megin við núllið. En þó að við séum ekki alltaf með farsa þá gengur þetta yfirleitt mjög vel hjá okkur. Litla hryllingsbúðin hefði til að mynda eflaust farið hátt í 40 sýningar ef ekki hefði verið heimsfaraldur sem setti strik í reikninginn,“ útskýrir Benóný og bætir við að álagið sem fylgir þessu gleymist um leið og tjöldin eru dregin frá á frumsýningunni.

„Þetta er ógeðslega gaman þó þetta sé erfitt akkúrat á þessum tímapunkti, þegar maður á að vera búinn að læra textann en er það ekki,“ segir Benóný glettinn. „En svo gleymir maður því hvað þetta er erfitt á mínútunni sem maður stígur á svið á frumsýningunni.“

Fiðringur á frumsýningu

Og talandi um frumsýningar en Benóný á þær nokkrar í reynslubankanum, þá segir hann að tilfinninginn sé alltaf einstök á degi frumsýningar. „Já, það er alltaf stress. Ég er reyndar rólegri en margir aðrir en það er klárlega alltaf frumsýningarstress. Allir leikstjórar sem ég hef unnið með segja það sama, að ef maður er ekki stressaður fyrir frumsýningu, þá þýðir það að þér sé alveg sama og það er enginn sem er búinn að leggja alla þessa vinnu á sig sem er svo alveg sama hvernig fer,“ útskýrir Benóný og bætir við að tilhlökkunin eftir því að byrja á nýju verki, spretti alltaf upp á ný þegar sýningum lýkur.

„Það er einhver ástríða sem togar mann alltaf aftur inn í þetta leikhúslíf. Maður fær ekki betra tækifæri til að máta sig við og lifa sig inn í aðrar persónur og sögur þeirra, og það er ómetanlegt.“

Leikfélag Húsavíkur er með öflugri áhugaleikfélögum á landinu og það er ekki að fara breytast með þessari uppsetningu. Leikhúsunnendur geta hlakkað til stórkostlegrar frumsýningar á „Sex í sveit." Með frábærum leikurum, spennandi söguþræði og miklu fjöri. Þetta verk ætti enginn leikhúsunnandi að láta framhjá sér fara. Og fyrir þá sem hafa gaman af góðum farsa þá er einfaldlega skyldumæting.

Nýjast