Húsavíkurflug Norlandair styrkt fram í miðjan mars Án fjárstuðnings gengur dæmið ekki upp

Norlandair notar 9 sæta Beachcraft flugvél í áætlunarflug milli Húsavíkur og Reykjavíkur            …
Norlandair notar 9 sæta Beachcraft flugvél í áætlunarflug milli Húsavíkur og Reykjavíkur Myndir Norlandair

„Við erum alltaf tilbúin að fljúga hvert sem er en það þarf að ganga upp,“ segir Arnar Friðriksson framkvæmdastjóri Norlandair. Félagið hefur séð um áætlunarflug milli Húsavíkur og Reykjavíkur frá því um miðjan desember. Samningstími milli félagsins og ríkisins um flug til Húsavíkur rennur út 15. mars næstkomandi og ekki hefur verið rætt um framhald þar á.

Byggðaráð Norðurþings telur að samningurinn hafi verið til of skamms tíma, nýting flugsins hafi verið góð og lítið vanti upp á til að tryggja flug milli Húsavíkur og Reykjavíkur árið um kring. Skorar byggðaráð á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að tryggja samninga um áætlunarflug til Húsavíkur allt árið.

Miðasala dekkar 40% af kostnaði

Arnar segir Norlandair tilbúið að halda flugi milli áfangastaðanna áfram að því tilskyldu að fyrir hendi sé áframhaldandi styrkveiting frá ríkinu. Án fjárstuðnings gangi dæmið ekki upp. Félagið notar 9 sæta Beachcraft flugvél í áætlunarflugið en flogið er fjórum sinnum í viku. Arnar segir að miðað við fulla vél báðar leiðir nái flugmiðasala um 40% af kostnaði við flugið.

„Þetta gengur því alls ekki upp nema til komi styrkur frá ríkinu og eins og staðan er núna hefur Vegagerðin sem sér um málið ekki næga fjármuni til að leggja í þessa leið. Í raun og veru snýst málið um að stjórnmálamenn taki af skarið og ákveði hvernig þessum málum verði háttað til framtíðar,“ segir Arnar.

 Farþegar bíða í flugstöðinni á Húsavíkurflugvelli

Nýjast