Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Lokaorðið - Mannréttindi?
Ég reikna með því að flestir núlifandi Íslendingar séu sammála um að lýðræðið sé það stjórnarfar sem getur best tryggt farsæld og öryggi almennings. Það kemur enda ekki á óvart því að lýðræðið grundvallast á því sjónarmiði að valdið sé í raun í höndum almennings sem felur það tímabundið í hendur fulltrúa sem kosnir eru í frjálsum, reglulegum, almennum og leynilegum kosningum.
Mannréttindi eru grundvöllur lýðræðisfyrirkomulagsins. Án skoðanafrelsis getur lýðræði ekki þrifist. Sömu sögu er að segja um tjáningarfrelsið, réttinn til að fara frjáls ferða sinna, réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, og réttinn til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð svo dæmi séu nefnd. Í mannréttindasáttmálum og mannréttindákvæðum er fest í letur sú grundvallarregla að allir sem teljast til tegundarinnar homo sapiens njóti þessarra grundvallarréttinda og þau verði ekki af þeim tekin.
Eðli málsins samkvæmt.
Mannréttindi koma ekki með valdboði að ofan. Þau eiga rætur í eðli mannsins. Rétturinn til lífs á til að mynda rætur í lífsvilja sem er manninum eðlislægur líkt og öllum öðrum tegundum dýra. Sama á við um önnur mannréttindi. Og þau réttindi eiga allir menn frá því að þeir fæðast. Það skiptir ekki máli hvort maður er kvenkyns eða karlkyns, trans, hinsegin, barn, rauðhærður, sjúkur, heilbrigður, ríkur, fátækur, valdalítill, valdhafi eða hvað annað sem fjölbreytileiki mannlífsins býður upp á. Mannréttindin eru okkar allra, hver sem við erum og hvernig sem við erum. Þau eru í okkur og frá okkur.
Á röngunni?
Ég hef stundum undrast ágreining um mannréttindi og enn meira þegar ég heyri málsmetandi menn amast við þeim. Ég velti því fyrir mér hvort við höfum tilhneigingu til að afsala okkur mannréttindum í von um að geta skipt þeim út og fengið öryggi og velsæld í staðinn. Og hvort við höfum síðan fengið á tilfinninguna að það sé hið opinbera sem ákveður mannréttindi okkar og að mannréttindi eigi að ráðast af því hvaða hópum við tilheyrum. Þannig sjónarmið leiða vissulega til ágreinings og sundrungar. Ef þetta er tilfellið þá erum við búin að snúa viðfangsefninu á haus. Mannréttindin eru okkar allra, þau eiga rætur í mennskunni og meðan við stöndum vörð um þau stöndum við samtímis vörð um mennskuna og lýðræðið.