Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Bakþankar bæjarfulltrúa Blágrænar lausnir, sólskin og bílastæði
Enn um tjaldsvæðisreitinn
Ég veit að mörg ykkar hafið veitt því athygli að í drögum að deiliskipulagi tjaldsvæðisreitsins okkar er afskaplega lítið tillit tekið til staðhátta. Trjágróður skal allur höggvinn. Útilokað virðist að snúa húsunum þremur austan Byggðavegar með sama hætti og þeim sem eru vestan götunnar sem myndi þó tryggja það markmið skipulagsins að húsin „snúi vel við sól.“ Þá dreg ég í efa skjólríki þess að hafa megin-umferðarleiðina þráðbeina þvert yfir tjaldsvæðið (þ.e. norður-suður). En annað segja hávísindalegar vindgreiningar – svo því sé haldið til haga.
Ég hef líka miklar efasemdir um bílastæðin sem eiga að vera langsum með fram bæði Byggðavegi og Þórunnarstræti. Það er næsta víst að þessi stæði verða mikið notuð því eins og segir í drögunum; gestastæði skulu að hámarki vera 0,1 fyrir hverja íbúð. Þarna eiga börnin, í skjóli kyrrstæðra bíla, að skutlast yfir götuna – til dæmis beint fram undan gamla Húsmæðraskólanum. Til að ráða bót á þessu á að gera Þórunnarstrætið sem torfarnast bílum, þrengja að og hægja á. Hvað skyldu t.d. sjúkraflutningamenn segja um þá tilhögun?
Ég hef líka mínar efasemdir um blágrænar lausnir sem er kerfi regn-í-sig-drekkandi-yfirborðs, ofanvatnsrása, regnbeða við götukant og tjarna. Markmiðið er meðal annars „að stuðla að sjálfbærum vatnsbúskap í heild“, svo vitnað sé í deiliskipulags-greinargerðina (bls. 52).
Ég dreg ekki í efa að þessar aðferðir blágrænna lausna henta sunnar á hnettinum en hvernig reynast þær þar sem frost er í jörðu jafnvel fram á vor? Eða ofan á bílakjöllurum? Og hvernig kemur slíkt kerfi smárra skurða og tjarna til með að líta út á tjaldsvæðinu?
Þá eru það „sérnotareitirnir“ sem ég minntist á fyrir viku. Með öðrum orðum einkalóðir íbúa neðstu hæða. Þær eiga samkvæmt meginreglu að vera á stærð við svalir efri hæða og mega ekki skaga lengra en tvo metra út frá útvegg. Ég hefði nú kosið að svalirnar væru stærri, sumar hverjar að minnsta kosti, en látum það vera. Þegar örsmáum einkalóðum („sérnotareitum“) sleppir tekur við garðrými sem skal opið „öllum íbúum þeirrar lóðar.“ Ég fæ ekki betur séð en að hér sé lagður grunnur að líkum grasreitum og við sjáum víða við blokkir bæjarins (sem eru í sameign íbúanna) og reynslan segir okkur að eru ekki til annarra nota en sláttar?
Jón Hjaltason
Svo er hið skemmtilega markmið um „lágreista byggð“. Alls á að reisa tólf byggingar á tjaldsvæðisreitnum (tel ei með stakt hús á bílastæðinu við Krambúðina) og 190 íbúðir (eða 163 til 180 eftir því hvar borið er niður í deiliskipulags-greinargerðinni). Fram með Byggðaveginum koma þrjú hús nær og önnur tvö fjær, 14,4-15 m. á hæð. Og það skal rækilega undirstrikað að allar tólf byggingarnar eru svipaðrar hæðar – og „taka mið af núverandi byggingum innan reitsins og umhverfis“, hljómar réttlætingin. Með öðrum orðum, viðmiðunarhúsið er Berjaya hótel (16,1 m), þar sjáum við nokkurn veginn vegghæðina sem á að vera alls ráðandi á tjaldsvæðisreitnum ef umrætt deiliskipulag nær fram að ganga
Jón Hjaltason
Óháður